136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú þykir mér menn farnir að leggjast lágt í þessari umræðu. Hv. þm. Sturla Böðvarsson gefur í skyn að þeir flokkar sem leggja þetta mál fram séu að gera það með óheiðarlegum hætti. Hvers lags málflutningur er þetta? Hvers lags málflutningur er það þegar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins stendur í pontu Alþingis og segir: Stjórnmálaflokkarnir eru almenningur. Er hv. þingmaður ekki í jarðsambandi? Stendur hv. þm. Sturla Böðvarsson í þeirri trú að allir Íslendingar séu bundnir í stjórnmálaflokka? (Gripið fram í.) Stendur hv. þm. Sturla Böðvarsson í þeirri trú að ekkert hafi gerst í íslensku samfélagi á undanförnum árum? Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur verið við völd á 18 árum, skipað alla hæstaréttardómara og hefur haft tangarhald á öllu íslenska stjórnkerfinu getur ekki sætt sig við að missa völdin. Hann er almenningur, eins og hv. þingmaður sagði. Stjórnmálaflokkarnir eru almenningur. Það er grátlegt, ekki grátbroslegt, að hlusta á þennan málflutning.