136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá góðu efnislegu umræðu sem fram fer um þetta mikilvæga mál. Hv. þm. Geir Hilmar Haarde lauk andsvörum við mig áðan með því að segja að allt væri þetta tóm vitleysa eftir að hafa talið að hér mætti heyra á endemi og væri nánast einsdæmi á byggðu bóli sumt af því sem í málinu er. Af því tilefni er rétt að deila með hv. þingmanni því sjónarmiði að það er oft manni sjálfum best umhugsunarefni þegar fíflunum fjölgar í kringum mann.

Ég held að fyrir því máli sem hér liggur fyrir séu mjög sterk og veigamikil efnisleg rök sem beri það með sér að það sé knýjandi nauðsyn fyrir okkur að hefja endurskoðun á stjórnskipun okkar í grundvallaratriðum en gera strax ákveðnar nauðsynlegar breytingar í framhaldi af því hruni sem varð í haust.

Í orðaskiptum okkar hv. þm. Geirs Haarde kom ágætlega fram sú ólíka sýn sem menn hafa á það sem gerðist í haust. Það er auðvitað grundvöllurinn að því máli sem nú er flutt að hér hafi ekki bara orðið fjármálahrun að mestu leyti fyrir tilverknað einhverra í útlöndum, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins í viðvarandi afneitun sinni heldur sig við, heldur stjórnkerfishrun. Það hefur sýnt sig að við höfum tekið ýmsar rangar ákvarðanir á undanförnum árum og áratugum og látið alls kyns hluti viðgangast sem algerlega nauðsynlegt er að við tökum strax á vegna þess að sinnuleysi okkar í að taka á því hefur að öllu samanlögðu leitt til þess að ófarnaður okkar í þeirri kreppu sem gengur yfir heiminn er meiri en gerist hjá öðrum þjóðum og staða okkar verri en annarra þjóða, sem gefur okkur sérstaka ástæðu til að skoða hvað við höfum gert öðruvísi.

Eitt af því sem hér er verið að flytja mál um er þjóðareign á auðlindum og tryggja það ákvæði í stjórnarskránni. Ég rakti áðan hversu brýnt það er við núverandi aðstæður vegna þess að nú erum við Íslendingar gríðarlega skuldsettir erlendis og fyrirtækin gríðarlega skuldsett bæði í sjávarútveginum og orkuiðnaðinum. Því er raunveruleg hætta á að ef við ekki gætum vel að lagaumhverfi okkar glötum við auðlindunum úr höndum okkar. Ég held að ekki sé nóg fyrir okkur að tryggja þjóðareign í stjórnarskrá heldur er nauðsynlegt fyrir okkur að endurhugsa kvótakerfið. Ég held að við þurfum að hlusta á orð manna eins og prófessors Þorvaldar Gylfasonar sem fært hefur fyrir því rök að með innleiðingu þess hafi upphafið að þeim hrunadansi sem við fórum í gegnum verið að finna. Þar hafi agaleysið, óhófið og siðferðisbrestirnir fyrst byrjað sem leiddu til ófarnaðar okkar. Með einkavæðingu á auðlindum hafsins hafi menn efnast mikið og óvænt og óréttlátlega hafi verið skipt og það hafi haft áhrif á menningu okkar, siðferði og á viðskiptalífið og í rauninni verið forspilið að því sem á eftir kom.

Ég held að núna þegar þetta eignarhaldskerfi á fiskinum í sjónum er svo að segja hrunið, því að skuldirnar á útgerðinni eru náttúrlega gríðarlega miklar, þá þurfum við að fara yfir það hvort ekki sé einfaldlega kominn tími til að gera það sem við jafnaðarmenn höfum talað fyrir mjög lengi, þ.e. að tryggja að fiskurinn í sjónum sé eign þjóðarinnar eins og orkuauðlindirnar og síðan séu það einkafyrirtæki og einstaklingar sem geti nýtt fiskveiðiréttinn í sjónum en greiði þá í sameiginlegan sjóð, til að mynda auðlindasjóð, fyrir þau afnot. Ég tel því brýnt að ljúka því sem snýr að stjórnarskránni svo menn geti í beinu framhaldi farið að huga að endurskoðun á þessum mikilvæga þætti í samfélagi okkar.

Í öðru lagi er verið að leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að mjög mikilvægt sé í framhaldi af hruninu að fólkið í landinu hafi leiðir til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þingið á formlegan hátt. Ég held að mikilvægt sé að við búum til lýðræðislegar leiðir eins og þessa og raunar aðra leið sem ég hef flutt mál um í þinginu um breytingar á kosningalögum þar sem gert er ráð fyrir að fólkið í landinu geti líka knúið fram alþingiskosningar og sveitarstjórnarkosningar ef það er mjög ósátt við þann meiri hluta sem starfandi er. Ég held að atburðirnir hér fyrir utan húsið á Austurvelli í vetur eigi að vera okkur lexía um að við þurfum að búa til formlegar lýðræðislegar leiðir fyrir fólk til þess að halda fram sjónarmiðum sínum og afla þeim fylgis og berjast fyrir þeim. Þess vegna sé ekki nema sjálfsagt einmitt í beinu framhaldi af atburðum vetrarins að láta af þessu verða.

Eins og margoft hefur komið fram líka er löngu tímabært að greiða fyrir breytingum á stjórnarskránni. Ég þekki það ágætlega eftir að hafa flutt mál um breytingar á stjórnarskránni sem í sjálfu sér var sjálfsagt mál, flutt á síðasta kjörtímabili sem ég held að allur þorri ef ekki allir þingmenn á Alþingi hafi getað staðið að þótt ég hafi flutt það með þingflokki Samfylkingarinnar.

Það laut að þeim þáttum í stjórnarskrá okkar sem snúa eða öllu heldur snúa ekki að aðild Íslands að styrjaldarátökum við aðrar þjóðir. Eins og við upplifðum í landinu var það einfaldlega þannig að þegar menn settu fram stjórnarskrána í hinu unga lýðveldi Íslands, vopnlausu og hlutlausu landi, gerðu menn ekkert ráð fyrir þeim möguleika að við gætum átt aðild að styrjöld.

Þegar þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson illu heilli og Íslandi til ævarandi skammar gerðu þjóðina og Alþingi ábyrg fyrir styrjaldarátökum, sem allur þorri þjóðarinnar og ég fullyrði meiri hluti Alþingis hefði aldrei stutt ef það hefði verið fyrir það lagt, kenndi sú reynsla okkur það að hér var umgjörð okkar um jafngríðarlega mikilvægar ákvarðanir og aðild að stríði alls ekki nógu formföst í stjórnarskránni.

Við fluttum mál um þetta og um það hefði ég talið að væri góð samstaða í þinginu, að standa yrði formlega og rétt að slíkum ákvörðunum ef þær verða einhvern tíma teknar aftur sem ég vona að verði sannarlega aldrei, það kann þó að reynast nauðsynlegt og þess vegna er mjög brýnt að við höfum sambærileg ákvæði við það eins og annars staðar þekkist um slík atriði. Það frumvarp og tugir annarra breytinga á stjórnarskrá hafa aldrei náð fram að ganga því það er einfaldlega býsna erfitt að breyta stjórnarskránni eins og nú er. Sumpart er það auðvitað gott. En í kjölfar hruns á kerfinu er auðvitað ekkert sjálfsagðara og eðlilegra en að við tökum kerfið til gagngerrar endurskoðunar.

Þá komum við að stjórnlagaþinginu. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir sína ágætu ræðu þar um. Ég vil líka þakka hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir hreinskilnina í andsvörum og málflutningi sínum.

Það sýnir sig nefnilega að þeir virðast ekki vera algerlega andvígir því að stjórnlagaþing fjalli um nýja stjórnarskrá. En þeir eru andvígir því að fólkið í landinu kjósi einstaklinga beint á það þing og það leggi niðurstöðu sína beint í dóm þjóðarinnar og vilja að valdið sé í höndum Alþingis. Ég held að það sé eins og um hinar ólíku skoðanir á hruninu í haust þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vill halda fram að það hafi bara verið fjármálahrun og aðallega alþjóðlegt meðan við höldum því fram að það hafi ekki síður verið stjórnkerfishrun, þá sé það afstaða Sjálfstæðisflokksins að Alþingi eigi ekki að afsala sér því valdi.

Það endurspeglar kannski líka ólík viðhorf til þess sem gerðist í haust. Það er a.m.k. sjónarmið mitt að við sem sitjum á Alþingi Íslendinga höfum sýnt það í haust að Alþingi var ekki traustsins vert. Kerfið hrundi á okkar vakt. Við þurfum hvert og eitt og líka í heild að axla þá ábyrgð með ýmsum hætti. Með því m.a. að skipta um ríkisstjórn. Með því að rjúfa þingið og efna til kosninga. Sumir með því að draga sig til baka úr þátttöku í stjórnmálum, aðrir með því að gangast undir prófkjör og síðan undir kosningar í apríl.

En við þurfum líka að mínu mati að axla ábyrgð einmitt með því að framselja vald okkar til endurskoðunar á stjórnarskránni til stjórnlagaþings. Vegna þess að einmitt með því felst viðurkenning þingsins á því að það hafi brugðist og best fari á því að þær reglur sem við störfum eftir séu settar, ekki af okkur sjálfum vegna þess að Alþingi brást, heldur af þeim bestu einstaklingum sem þjóðin kýs til þess verks og að niðurstaða þess þings eigi að fara beint í dóm þjóðarinnar þannig að það sé þjóðin sem setji okkur og Alþingi nýjar leikreglur en ekki við sjálf. Af hverju ekki við sjálf, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins? Vegna þess að Alþingi reyndist ekki vera traustsins vert. Þess vegna er ríkt efnislegt tilefni til að kjósa sérstakt þing með sjálfstætt umboð til að setja okkur nýjar leikreglur til að fara eftir og leggja það alveg milliliðalaust í dóm þjóðarinnar. Að sjálfsögðu með umsögn héðan en ég heyri að hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þykir hlutverk umsagnaraðila ekki vera merkilegt og er það athyglisverð afstaða svo ekki sé meira sagt þegar tekið er tillit til þess hversu ríkan þátt í störfum þingsins ýmsir umsagnaraðilar eiga og hélt ég að þeir hefðu meiri virðingu hér í sölum en ráða mátti af orðum formanns Sjálfstæðisflokksins í ræðustólnum.

Hvað er það í leikreglunum sem þarf að endurskoða? Það eru auðvitað grundvallaratriðin um aðskilnað valdþátta, eftirlit, aðhald, sjálfstæði og um óhæfi. Í ritgerð sinni Hvað er upplýsing? gerir einn mesti heimspekingur sögunnar, Kant, grein fyrir forsendunum fyrir upplýsingaöldinni, þeirri öld sem í sögu okkar á Vesturlöndum var framfaraöldin mikla þegar lífskjör um alla álfuna og menning naut mikillar velgengni og framfara.

Einn grundvallarþáttur upplýsingarinnar er að áliti Kants sá að Friðrik mikli leyfði embættismönnum að hafa eigin skoðanir. Einvaldurinn leyfði embættismönnunum að hafa eigin skoðanir, þ.e. skoðanaskipti voru leyfileg. Vegna þess eins og John Stuart Mill, kollegi Kants, leiddi síðar ágætlega fram er það í skoðanaskiptum, í frjálsum skoðanaskiptum, sem framfarir í hugsjón og hugmyndum verða. Okkur sem höfum orðið fyrir skipbroti á þess vegna að vera verulegt umhugsunarefni að á undanförnum mörgum árum hefur í vaxandi mæli verið dregið úr sjálfstæði og óhæfi embættismanna ríkisins með því m.a. að hér á landi hefur fengið að vera óhófleg speglun í embættisveitingum, pólitísk speglun þannig að menn hafa augljóslega notið stjórnmálalegrar aðstöðu sinnar, tengsla eða vensla í embættisveitingum. Stofnanir hafa verið lagðar niður vegna þess að þær voru pólitískt ekki þóknanlegar valdhöfunum og með ýmsum öðrum hætti þeim skilaboðum verið komið skýrt á framfæri að menn skyldu hlusta á valdherrana.

Ég held að þetta sé eitt af því sem við þurfum að taka til endurskoðunar, ekki að leita að neinum sérstökum sökudólgum heldur bara að viðurkenna að ein af ástæðunum fyrir því að Íslandi farnast verr en öðrum þjóðum í þeirri heimskreppu sem nú gengur yfir er sú að við vorum að sumu leyti gagnrýnislausari, hér skorti sjálfstæði í embættismannakerfinu og stjórnmálakerfinu og gagnrýni skorti.

Það er brýnt og aðkallandi að við göngum strax í það verk rétt eins og við eigum að ganga strax í það verk að rétta við efnahaginn og skapa atvinnu, að við göngum strax í það verk að vinna að úrbótum á stjórnkerfi okkar til að snúa af þessari leið. Ég hygg að það sé best gert með stjórnlagaþingi. Ég held að það sé rangt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að þar muni flokkarnir bjóða fram einhverja lista sína. Ég held alls ekki að það verði þannig.

Það hefur auðvitað löngum verið svo að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gjarnan, af því hann er stærstur flokka, haldið eða reynt að fá kosinn úr sínum röðum forseta lýðveldisins. Ég held hins vegar að sagan sýni okkur að um þá stofnun í íslensku samfélagi hefur einfaldlega verið rík andstaða við að hún sé í eigu einhvers flokks. Þangað hafa verið kosnir einstaklingar. Ég held að sama sagan verði uppi með stjórnlagaþingið, að fólk muni leggja áherslu á að þangað muni veljast einstaklingar á grundvelli hæfni sinnar, tillagna og hugmynda sem þeir fella fram í þeirri umræðu sem þarf að fara fram um þetta stóra verkefni.

Ég held að þó menn geti haft ýmsar hugmyndir um hvernig eigi að útfæra stjórnlagaþingið og fram þurfi að fara góð efnisleg umræða um með hvaða hætti það er gert, þá sé það algert grundvallaratriði að við látum verða af því að taka heildarendurskoðun á stjórnarskránni sem allir þingmenn vita að ekki hefur tekist að ná fram að þessu.

Það mál sem hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, flytur er henni ekki með öllu óþekkt. Ég vann drög að frumvarpi um stjórnlagaþing upp úr málum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flutti um miðjan síðasta áratug. Í þessu efni eins og mörgum öðrum hefur hæstv. forsætisráðherra verið býsna framsýn en hún eins og raunar líka þingmenn Bandalags jafnaðarmanna höfðu áður flutt tillögur um að farið yrði í sérstakt stjórnlagaþing og tekið á þessum brýnu þáttum í leikreglum okkar.