136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:58]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér kemur svolítið á óvart hvað þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem hér hafa talað, treysta þjóðinni illa. Að Alþingi skuli alltaf hafa bæði fyrsta og síðasta orðið en ekki þjóðin.

Af reynslu minni í þinginu undanfarin ár tel ég einmitt að mesti lýðræðisvandinn sé annars vegar að þjóðin skuli ekki eiga beina aðkomu að málum — vissulega kýs hún þingmennina en getur ekki komið með beinum hætti og sjálf átt frumkvæði og óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mál — og hins vegar að þingið sendi ekki oftar mál til þjóðaratkvæðagreiðslu og breikka þarf heimild þingsins til að þjóðin fái að segja sitt.

Ég vildi spyrja t.d. hv. þm. Sturlu Böðvarsson um kjördæmabreytinguna sem varð 1999. Er líklegt að hún hefði verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það má vel vera. (Gripið fram í.) Við vitum það ekki. En við töldum báðir mikla andstöðu við það.

Ég vil spyrja hv. þm. Sturlu Böðvarsson um þessa afstöðu til þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Til dæmis hvers vegna hefðum við ekki átt að bera einkavæðingu og sölu Símans undir þjóðaratkvæðagreiðslu? Í skoðanakönnunum sýndu 70–80% sig vera mjög andvíg því. Vel má vera að meiri hlutinn hefði síðan samþykkt. Gott og vel. En hvað um Kárahnjúkavirkjun og það að taka þátt í innrásinni í Írak sem var ekki einu sinni borið undir þingið.

Ég held að við verðum (Forseti hringir.) að styrkja lýðræðislega stöðu þjóðarinnar í miklu ríkara mæli en verið hefur undanfarin ár og þetta frumvarp er liður í því.