136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:12]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þingmönnum Bjarna Benediktssyni og Valgerði Sverrisdóttur að hér er um að ræða langstærsta einstaka úrlausnarefni íslensks samfélags í dag. Ég tek einnig undir það með hv. þingmanni að það er mikilvægara en margt annað að ná þessum málum upp úr skotgröfum flokkastjórnmálanna, frelsa málið út úr svona afdankaðri hræðsluáróðursumræðu eins og hv. þm. Pétur Blöndal viðhafði áðan og ræða raunverulega kosti og galla við Evrópusambandsaðild. Við getum rifist um það næstu 100 árin hvað við fáum og fáum ekki út úr aðild. Meginmáli skiptir að sækja um aðild að sambandinu, ganga til samninga og greiða síðan atkvæði um samninginn rétt eins og Norðmenn hafa gert í tvígang og þar hefur þjóðin í bæði skiptin fellt samninginn.

Vel má vera og er ekkert ólíklegt og ekki útilokað að íslenska þjóðin geri slíkt hið sama ef hún fellir sig ekki við samninginn hvað varðar yfirráð yfir náttúruauðlindum, afdrif landbúnaðarins og ýmislegt annað en staðan í gjaldmiðilsmálunum bókstaflega hrópar á lausnir. Það mætti nefna nokkrar til sögunnar, núverandi fyrirkomulag, endurmat á því, einhliða upptöku á öðrum gjaldmiðli og síðan þá að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru í gegnum það sem ég held að sé langlíklegasta lausnin.

Okkur á Alþingi Íslendinga ber að ræða þetta mál af hófstillingu og málefnalegri yfirvegun, um kosti og galla, og koma okkur síðan saman um það hvenær best er að sækja um aðild og á hvaða forsendum og ganga síðan með þann samning fyrir þjóðina. Þess vegna var ég hjartanlega sammála öllu megininntaki greinar þeirra félaga hv. þm. Bjarna Benediktssonar og Illuga Gunnarssonar frá því í desember um að það sé langmikilvægasta verkefnið að sækja um aðild og ganga síðan með samning fyrir þjóðina til kosninga þar á eftir. Vel má vera að þjóðin komist að því að okkur sé best borgið fyrir utan en það er líka betra að hún ákveði það en ekki hv. þm. Pétur H. Blöndal.