136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:14]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal að bónorð á aldrei að bera upp í hálfvelgju eða með skilyrðum. Þetta snýst nefnilega um að vita hvað maður vill og að hafa stefnu. Til þess eru stjórnmálaflokkar að bera fram stefnu sem þeir reyna að vinna fylgis meðal þjóðarinnar. Aðeins einn stjórnmálaflokkur á Íslandi hefur til skamms tíma haft það á stefnu sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu, semja um hana og leggja svo þá niðurstöðu í dóm þjóðarinnar. Það er eina leiðin til að afgreiða þetta mál og til að fá það upp á borðið um hvað það snýst að Ísland verði e.t.v. í framtíðinni aðildarríki að Evrópusambandinu. Hjá þessum staðreyndum komast menn ekki hvernig sem þeir láta. Þetta er viðfangsefnið og þess vegna þurfa íslenskir kjósendur að vita það eigi síðar en 25. apríl næstkomandi hvað stjórnmálaflokkarnir vilja. Hafa þeir það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild? Munu þeir leggja það í dóm kjósenda 25. apríl? Um leið og ljóst er að þingmeirihluti er á löggjafarsamkomunni fyrir því að taka þetta skref þá tökum við það skref. Þess vegna þýðir ekki fyrir þingheim og menn hér inni að tala út og suður um þetta. Menn verða að segja kjósendum hver er stefna flokksins sem þeir standa fyrir. Ætla þeir að standa við hana og fá niðurstöðu í það mál í alþingiskosningunum 25. apríl?