136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:27]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka það sem ég kom inn á hér áðan að þingheimur og landsmenn allir fái þau lögfræðiálit varðandi Icesave og þær skyldur sem búið er að leggja á íslenska þjóð, fái þau lögfræðiálit fram sem eru bak við luktar dyr í utanríkisráðuneytinu og kannski fleiri ráðuneytum og stofnunum á vegum hins opinbera.

Varðandi Evrópusambandið tel ég hins vegar að það sé ekki rétt sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði hér áðan að núverandi gjaldeyrisstaða hrópaði á lausnir, þ.e. að það þurfi að skipta um gjaldmiðil einn, tveir og þrír. Ég held að miðað við þá stöðu sem við erum í í dag séu málin þannig að við verðum að vinna okkur út úr þeim vandamálum með því að halda krónunni um nokkurt skeið. Verkefni okkar núna er að koma íslensku samfélagi á réttan kjöl. Þegar við erum búin að ná því tel ég eðlilegt að menn sæki um aðild að Evrópusambandinu og fái niðurstöðu, fari í aðildarviðræður og fái niðurstöðu. Þjóðin skiptist nokkurn veginn jafnt, samkvæmt skoðanakönnunum, á milli þeirra sem vilja ganga í Evrópusambandið og þeirra sem vilja ekki ganga í Evrópusambandið. En það er talsvert mikill meiri hluti þjóðarinnar sem vill fá niðurstöðu, sem vill fara í aðildarviðræður og fá niðurstöðu og greiða síðan atkvæði um niðurstöðuna.

Ég segi fyrir mig, ég er fylgjandi þeirri leið þó að ég sé ekki búinn að gera upp hug minn varðandi Evrópusambandið. Norðmenn gerðu þetta á sínum tíma, 1991, og náðu að afgreiða þetta mál aftur fyrir sig, fengu niðurstöðu og afgreiddu málið, þjóðin afgreiddi málið. Við getum ekki eytt næstu áratugum í að rífast um það hvað sé hugsanlega í pakkanum og hvað ekki. (Forseti hringir.) Við verðum að fá niðurstöðu og síðan á þjóðin að ráða.