136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

þingrof og kosningar.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur á fundi sínum í morgun fjallað um þau mál sem liggja fyrir þinginu og hún telur nauðsynlegt að afgreiða áður en þingi verður frestað. Hún fjallaði líka um nýtt mál sem þarf að komast fyrir þingið og snertir aðgerðir fyrir heimilin í landinu.

Ég hef ákveðið að kalla formenn flokkanna á fund klukkan hálftólf og ég vænti þess að þeir hafi fengið þau skilaboð. Þar munum við meðal annars fara yfir þau mál sem ríkisstjórnin telur mikilvægt að afgreiða og þá spurningu sem hv. þingmaður bar upp hér.