136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

skerðing almannatrygginga vegna fjármagnstekna.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er að vísa til þeirra aðgerða sem gripið var til fyrir jólin að því er varðar almannatryggingabæturnar. Það var alveg ljóst að við vorum þar í miklum erfiðleikum við að taka á málum og fórum þá leið sem við töldum að gæti komið best út fyrir almannatryggingaþega. Eins og hv. þingmaður veit var á sl. ári búið til ákveðið frítekjumark að því er varðar fjármagnstekjur, 90–100 þús. kr., sem skiptir mjög miklu máli vegna þess að þegar ekkert frítekjumark var á fjármagnstekjunum urðu litlar fjármagnstekjur til þess að það myndaðist ofgreiðsla hjá fólki sem þá þurfti að greiða. En þegar við settum frítekjumarkið, þær 90 þús. kr. sem ég held að séu orðnar 100 þús. núna, kom það í veg fyrir helminginn af þeirri ofgreiðslu sem fólk þurfti að búa við og var rukkað um eftir á.

Varðandi það að fara með skerðinguna úr helmingi af fjármagnstekjum í 100% var það m.a. hugsað sem leið til sparnaðar en líka til jafnræðis við aðrar greiðslur sem skerða almannatryggingabætur. Ég spyr: Af hverju er eðlilegt að lífeyrisgreiðslur skerði almannatryggingabætur, þ.e. úr lífeyrissjóðunum, meðan það er ekki nema helmingurinn af fjármagnstekjum sem skerðir almannatryggingabætur? Það var einungis helmingurinn sem skertist hjá þeim sem hafa fjármagnstekjur og var þetta m.a. hugsað til jafnræðis við aðrar greiðslur sem skerða almannatryggingabætur.