136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Hér er spurt um tölur og þær eru orðnar nokkuð gamalkunnar, ég held að það láti nærri að heildarreikningurinn vegna Icesave-reikninganna í Bretlandi og Hollandi sé um 600 milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi. Um tíma var þessi upphæð um 700 milljarðar og það er að sjálfsögðu bara háð því gengi sem er á pundi og evru á hverjum tíma. Nýjasta mat skilanefndar Landsbankans sem legið hefur fyrir nú um nokkurra vikna skeið er að upp í þessa reikninga kunni að endurheimtast eignir ef þær verða losaðar, kannski einkum eftir 3–5 ár, þannig að eftir standi 70–75 milljarðar króna. Þetta mat er auðvitað háð gríðarlegri óvissu, m.a. um markaðsaðstæður og verðmæti eignanna þegar þarna kæmi. Það er rétt að upplýsa að ekki eru allir aðilar jafnbjartsýnir á þetta mat og skilanefnd Landsbankans.

Hv. þingmaður spyr hvað gerist ef við borgum ekki, í þeim skilningi að við slítum samningaviðræðum og neitum að borga. Ég held að ég verði að taka undir það svar sem hæstv. utanríkisráðherra gaf í þeim efnum. Það liggur því miður fyrir og mátti öllum verða ljóst strax í haust að það eru tengsl milli þessa máls og áætlunarinnar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og það eru líka tengsl milli þessa máls og samningaviðræðna okkar við norræna seðlabanka og Pólland og Rússland um gjaldeyrislán til að efla gjaldeyrisvaraforða okkar.

Ég held að staðan sé einfaldlega sú og þannig er fyrir mælt af hálfu Alþingis að það eigi að halda þessum samningaviðræðum áfram og láta á þær reyna en þar með er að sjálfsögðu ekki sagt að það eigi að skrifa undir hvaða afarkosti sem er. Það er ekki falið í samþykkt Alþingis eins og ég skil hana.

Viðræður eru að hefjast, ríkisstjórnin samþykkti 24. febrúar sl. að fela fjármálaráðherra, mér, að hafa forustu um og bera ábyrgð á því að skipa samninganefnd og það var gert í framhaldinu. Sú nefnd er þannig skipuð að henni veitir forustu Svavar Gestsson sendiherra og ásamt honum eru í nefndinni Indriði H. Þorláksson, settur ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, Páll Þórhallsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, Marteinn Eyjólfsson, lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu, Áslaug Árnadóttir, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu og Sturla Pálsson, hagfræðingur í Seðlabanka Íslands.

Ég geri ráð fyrir að viðræðufundir komist á eða líklegt sé að þeir verði undir lok þessa mánaðar, í nágrenni við mánaðamótin, það hefur ekki verið tímasett endanlega, en samninganefndin hefur unnið mikið undirbúningsstarf að undanförnu. Ýmis tengsl hafa verið byggð upp, þannig höfum við, þ.e. ég ásamt viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra, átt fundi með sendiherrum og sendimönnum þessara ríkja, þar á meðal hæstv. utanríkisráðherra með sérstökum sendimanni forsætisráðherra Bretlands. Slíkum tengslum verður haldið áfram og eins og ég segi líklegt að formlegir viðræðufundir komist á á nýjan leik undir lok þessa mánaðar. Málið er í þeirri stöðu sem fráfarandi ríkisstjórn skildi það eftir í en hafði í raun verið afvelta frá því í desember og fram í febrúar að ný stjórn tók við. Það er hlutskipti okkar að reyna að greiða úr þessu erfiða, svo ég segi ekki hörmulega, máli eftir því sem best er hægt við þær aðstæður sem það er í og við erum stödd í gagnvart því.

Ég hef átt ágætan fund með utanríkismálanefnd þar sem við fórum rækilega yfir stöðuna í þessu máli um svipað leyti og samninganefndin var skipuð. Og þótt það sé fremur óvenjulegt að fjármálaráðherra sitji á löngum fundum með utanríkismálanefnd var það engu að síður svo og ég geri ráð fyrir að óska eftir því að hitta nefndina fljótlega aftur til að upplýsa hana frekar um stöðu málsins og viss samskipti, þar á meðal við bresk stjórnvöld.

Ég tel einnig sjálfsagt mál ef nefndin óskar eftir því að samninganefndin eða formaður samninganefndar komi á hennar fund. Utanríkismálanefnd hefur í fórum sínum, að ég held, nánast öll gögn og trúnaðarskjöl í þessu máli og það verður séð um það áfram að hún fái þau í hendur eða verði upplýst um málin eins og þeim miðar. Það er ákaflega mikilvægt að geta átt slík samskipti við utanríkismálanefnd í trúnaði um þessi mál því auðvitað er öllum ljóst að hér eru gríðarlega afdrifaríkir hagsmunir á ferðinni, viðkvæmir og vandasamir samningar og samskipti við erlend ríki og því er afar mikilvægt að geta átt gott samstarf við utanríkismálanefnd um þessa hluti eins og þeim vindur fram og þar með þverpólitískt samstarf við fulltrúa allra flokka hér á þingi.