136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

hagsmunir Íslands vegna Icesave-ábyrgðanna.

[11:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að fylgjast með Sjálfstæðisflokknum í þessari umræðu. Við þekkjum það frá því í haust að þá fór fram mikil barátta þegar við öttum kappi við sjálfstæðismenn í ríkisstjórnarsamstarfi um það hvernig ætti að taka á því hruni sem þá varð. Þá var það ljóst að heimastjórnarklíkan í Sjálfstæðisflokknum vildi skella öllum hurðum í lás, segja landið úr lögum við umheiminn og búa til úr Íslandi einhvers konar sjóræningjaland í Norðurhöfum sem ekki stæði við þær skuldbindingar sem leiddu af þjóðarrétti. Hins vegar var þáverandi forusta flokksins, undir forustu hv. þm. Geirs Haarde og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, tilbúin til að axla ábyrgð og leiddi ásamt Samfylkingunni til þeirrar niðurstöðu sem náðist um Icesave-ábyrgðirnar.

Í umræðunni hér í dag eru tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem eru báðir fulltrúar einangrunarklíkunnar sjálfrar, mennirnir sem vilja ekki að við stöndum við þær skuldbindingar sem við höfum sannanlega þurft að standa við, (Gripið fram í.) menn sem þá töluðu gegn því að við stæðum við þessar ábyrgðir og gera það aftur nú. Hvað þýðir þetta, virðulegi forseti? (Gripið fram í.) Þetta þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega á harðahlaupum undan ábyrgð í þessum málum. (Gripið fram í: Hvað finnst …?) Sjálfstæðisflokkurinn verður hér ber að því að verða lýðskrumsflokkur af verstu sort rétt fyrir kosningarnar. (Gripið fram í: Þetta …) Og það hlýtur að vera dapurlegra en tárum taki fyrir hv. þm. Geir H. Haarde að sitja hér í salnum og hlusta á þennan málflutning þeirra sömu manna og héldu þessum þvættingi fram í haust sem halda því aftur fram nú að Ísland geti sagt sig úr lögum við umheiminn og þurfi ekki að taka ábyrgð í samfélagi þjóðanna.

Virðulegi forseti. Það þarf staðfestu á erfiðum tímum. Málstað Íslands hefur verið haldið fram. Það er engin slík lagaóvissa um réttarstöðu Íslands að það sé ekki eðlilegt að ganga til samninga við nágrannaríki okkar á eðlilegum forsendum um þessi mál. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Við eigum að axla ábyrgð á því sem við höfum gert og við eigum ekki (Forseti hringir.) að reyna að koma fram sem sjóræningjaríki í Norðurhöfum eins og Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) augljóslega leggur nú til.