136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[14:30]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt að svo vel stendur á hjá menntamálaráðuneytinu, við svo góðu búi tekur núverandi hæstv. menntamálaráðherra að það eru til sjóðir til þess að greiða þetta fyrsta kastið en þó ekki til fullnustu. Strax þegar líður að næsta ári þarf að hefja fjáröflun og þá eins og hér er gert ráð fyrir, með lántökum.

Ég fagna því að það skuli vera til sjóðir til að fara af stað með þetta svo hægt sé að koma þessum nýju sjóðum á. Ég tel að það sé afar mikilvægt að þeir fjármunir verði nýttir til þess að skapa þeim nýju hópum sem gert er ráð fyrir að bætist við skilyrði til þess að sækja um stuðning og styrki fremur en það verði gert með öðrum hætti.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en legg áherslu á að áfram verði unnið að því að skapa traustari fjárhagslegan grundvöll undir þessa mikilvægu löggjöf.