136. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2009.

Tilkynning forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

[10:52]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Nú liggur fyrir hvernig staðið verður að málum að því er varðar þingrof og kosningar. Hins vegar liggur ekki fyrir, hæstv. forseti, hvernig okkur tekst að afgreiða mál hér í hv. Alþingi. Þar er mikið verk að vinna og margt verður að nást fram áður en við göngum til kosningabaráttunnar, til alþingiskosninganna og síðan til ríkisstjórnarmyndunar. Það tekur allt sinn tíma og þess vegna þarf nauðsynlega að leggja upp með það að við höfum lokið þeim málum sem gagnast þjóðinni best yfir þann tíma sem Alþingi er ekki starfandi.

Hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan úr þessum ræðustól að trúnaðarrof hefði orðið milli þings og þjóðar. Ég vil frekar orða það þannig, hæstv. forseti, að trúnaðarrof hefði orðið milli þjóðarinnar og þeirra stjórnmálaflokka sem stjórnað hafa landinu undanfarin ár, undir forustu Sjálfstæðisflokksins í tæplega 18 ár. Við sitjum núna uppi með það hörmungarástand sem dunið hefur á þjóðinni, því miður, og þúsundir Íslendinga standa frammi fyrir atvinnuleysi. Fólkið í landinu er að tapa eigum sínum og jafnvel einnig húsnæði sínu.

Við þurfum að leggja áherslu á fjölmörg mál og reyna þannig að lágmarka skaðann meðan gengið er til kosninga og nýrrar ríkisstjórnarmyndunar. Þjóðin þarf vissulega að horfa til framtíðar þrátt fyrir áföllin. Við í Frjálslynda flokknum höfum stutt góð mál hér í þinginu hvaðan sem þau hafa komið og munum gera svo áfram. Við leggjum líka verkferla okkar og málflutning í hreinskilni fyrir þjóðina og kvíðum ekki þeirri niðurstöðu. Það þarf að gera lýðræðisumbætur í þessu landi og við styðjum þær breytingar sem lagt hefur verið upp með í sambandi við stjórnarskrármálið og eins að því er varðar röðun lista og óraðaða lista fyrir alþingiskosningar.

Þetta eru mikilvæg mál fyrir framþróun lýðræðis í landinu og mikilvægt fyrir þjóðina að finna að Alþingi tekur líka slík mál til afgreiðslu og þau eiga ekki að þurfa að tefja þau mikilvægu mál sem við þurfum að framkvæma og koma hér í gegn að öðru leyti en því er varðar hag fyrirtækja og fólksins almennt í landinu. Það er hins vegar bara verklag okkar hér á þinginu hvernig við ætlum að klára þau mál. Ef við stöndum saman um það mun þjóðin auðvitað sjá að við getum klárað það á tiltölulega stuttum tíma. Ef menn ætla hins vegar að vera í endalausum deilum um það hvernig verkin eigi að ganga fram miðar okkur auðvitað lítið.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég trúi því ekki að svo verði heldur muni þingflokkarnir ná saman um það hvernig þingið á að ganga fram til þess að þjóðin sjái að við höfum sameiginlega fullan vilja til að lágmarka þann skaða sem á þjóðinni hefur dunið.