136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[11:20]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það var ekki niðurskurður í nokkra daga og framlagið til Fjarskiptasjóðs sem tafði það mál. Það tafði það ekkert. (StB: Hvers vegna …?) Tillögurnar sem komu um niðurskurð komu mér jafnmikið á óvart og öðrum. Hv. þingmaður sem setið hefur í ríkisstjórn veit hvernig ríkisfjármálahópur vinnur, hvernig þetta kom þar inn. Það var (StB: Fagráðherrar skipta ramma sínum.) við 3. umr., virðulegi forseti, (Gripið fram í.) sem þetta mál náðist aftur inn.

Virðulegur forseti. Ég skil ekki almennilega það ójafnvægi sem er á hv. þm. Sturlu Böðvarssyni um þessar mundir nema að það séu bara innantökurnar hjá Sjálfstæðisflokknum almennt sem koma svona fram í hvaða máli sem er og þjóðin hefur fyrir framan sig daginn út og daginn inn.

Virðulegur forseti. Á vegum Fjarskiptasjóðs var unnið með — og það sem ég fór yfir hér í byrjun hvernig þurfti að fara um allt landið, á tímabili þegar ég kom í ráðuneytið leit út fyrir að það væru 200 bæir sem þyrfti að taka á vegum Fjarskiptasjóðs. Fyrirtæki á markaði ætluðu að taka allt hitt. Þegar við vorum búin að fara yfir landið, kalla eftir markaðsaðstæðum hjá fyrirtækjunum, hvað þau ætluðu að gera, voru bæirnir orðnir 1.200. Og halda menn virkilega að þetta hafi ekki tafið verkið, að koma þessu í útboðsgögn? Þeir voru orðnir 1.200. (StB: Þeir voru alltaf 1.200.) Þeir voru ekki alltaf 1.200. Og hvað eru þeir margir í dag? Eftir að tilboðin voru opnuð og kallað var eftir frá fyrirtækjum á markaði hvað þau ætluðu að gera, hvað gerðist þá? Þá fjölgaði bæjunum úr 1.200 í 1.800, um 600 bæi. (Gripið fram í: Var það bara ekki jákvætt?) Þetta hefur allt tekið sinn tíma, virðulegi forseti, að koma þessu í gagnið. Ég segi bara alveg eins og er, ég held að hv. þingmaður hefði frekar átt að koma og fagna þessu en að þenja sig hér en það er eins og við segjum, þjóðin er enn einu sinni að verða þess áskynja hvernig Sjálfstæðisflokkurinn er eftir að hann hætti í ríkisstjórn og er kominn í minni hluta í þinginu, innantökurnar og fráhvarfseinkennin (Forseti hringir.) eru að birtast þjóðinni hér í dag.