136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[11:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum nú hefur borið nokkuð brátt að og því hefur ekki gefist mikið tóm til að fara nákvæmlega yfir það. Mér hefur hins vegar verið það vel kunnugt að viðræður hafa staðið yfir milli Sambands sveitarfélaga, ríkisvaldsins og Bændasamtakanna um framtíðarfyrirkomulag Bjargráðasjóðs. Eins og kom fram á búnaðarþingi hefur verið mikill vilji hjá Bændasamtökunum til að finna framtíðarlausn á fyrirkomulagi Bjargráðasjóðsins og það er mjög vel að komin sé einhver niðurstaða í það mál.

Við vitum að það hafa verið skiptar skoðanir um hvort ætti að starfrækja Bjargráðasjóð eður ei. Hér hefur starfað nefnd sem unnið hefur að þeim málum en hún hafði ekki lokið störfum þegar lagt var fram frumvarp sem gerir ráð fyrir því að hverfa frá Bjargráðasjóðnum í þeirri mynd sem hann hafði verið. Ég tel að það hefði ekki verið skynsamlegt að gera það. Ég held að það sé mjög mikilvægt að Bjargráðasjóður sé til staðar og því fagna ég þeirri niðurstaða sem hér er fengin því hún felur það þó í sér, gagnvart því sem áður var en þá voru uppi áform um að leggja sjóðinn niður. Hér er þó búið að taka ákvörðun um að hann starfi áfram þó að það verði í breyttri mynd. Í sjálfu sér geri ég ekki athugasemd við það. Ég treysti því að þessi mál hafi verið unnin í bærilegri sátt við sveitarfélögin í landinu sem eru aðilar að þessu.

Það fyrirkomulag sem hér er verið að leggja til er í grófum dráttum það sem ég veit að Bændasamtökin og fleiri höfðu áhuga á að gæti orðið í framtíðinni. Það er í sjálfu sér jákvætt að sú niðurstaða er þó alla vega fengin að Bjargráðasjóður sé til staðar því eins og hefur komið fram og allir vita þá hefur Bjargráðasjóður í gegnum tíðina gegnt mjög miklu hlutverki, oft við erfiðar aðstæður í landbúnaði. Nú hafa aðstæður auðvitað breyst á margan hátt og þess vegna er eðlilegt að endurskoða framtíðarhlutverk sjóðsins eins og hér er verið að gera.

Kjarni málsins er sá að sveitarfélögin eru að hverfa út úr sjóðnum og þau taka með sér bæði tilteknar skuldbindingar og tilteknar eignir. Það er því eitt af því sem þingnefndin sem fær málið til umfjöllunar þarf að gera, að fara mjög nákvæmlega yfir fjárhagsstöðu og efnahagsstöðu sjóðsins. Það þarf að sjálfsögðu að liggja fyrir hver hún er þannig að við sjáum hvaða burði Bjargráðasjóður hefur framtíðinni til að sinna því verkefni sem honum er ætlað samkvæmt því frumvarpi sem liggur fyrir.

Þetta frumvarp er lagt fram í skugga mjög mikilla hækkana sem hafa orðið á aðföngum til bænda og landbúnaðarins. Það er skemmst frá því að segja og er öllum kunnugt að hækkanir hafa verið gríðarlega miklar og hafa komið mjög hart niður á landbúnaðinum í landinu. Þetta á alveg sérstaklega við um áburðarverðið sem hefur hækkað mjög mikið á undanförnum tveimur árum. 700 millj. kr. kostnaðarauki lendir á bændum að öllu óbreyttu nú milli ára og það kemur ofan í 1.200–1.300 millj. kr. hækkun sem varð á áburðarverði á árunum þar á undan. Það má segja að á u.þ.b. tveggja ára tímabili hafi áburðarreikningurinn til bænda hækkað um allt að 2 milljarða kr. Þetta er gífurleg hækkun fyrir atvinnugreinina og bitnar mjög harkalega á henni eins og hefur komið fram. Það fer ekkert á milli mála að fjármögnun á áburðarkaupum verður mjög erfið fyrir marga bændur við þessar aðstæður. Við vitum að bankakerfið hefur viljað koma til móts við landbúnaðinn almennt en bankakerfið er hins vegar að bjóða lán með um 25% vöxtum og það sjá allir að landbúnaðurinn getur alls ekki risið undir því og sú fjármögnun getur því miður orðið mörgum bændum ofviða. Þess vegna hefur það mjög oft verið rætt hvort hægt væri að koma til móts við bændur á einhvern hátt þótt ekki væri nema til skamms tíma, til að taka af þann verðhækkunarkúf sem hefur bitnað mjög harkalega á landbúnaðinum síðustu tvö árin, eins og ég hef þegar rakið.

Í tíð minni sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var það m.a. athugað af alvöru hvort ástæða væri til að ríkið kæmi inn sérstaklega í því skyni að greiða niður áburðarverð en frá því var horfið vegna þess að ótti manna var sá að þær niðurgreiðslur kynnu að rata í allt aðra vasa en í vasa bændanna. Það er það mál sem ég hef hvað mestar áhyggjur af varðandi þetta því í hinu nýja frumvarpi um Bjargráðasjóð er verið að leggja það til að hlutverki sjóðsins verði breytt á þann veg að opnað sé fyrir það með sérstöku bráðabirgðaákvæði, bráðabirgðaákvæði IV að ég hygg, að sjóðurinn komi að því að greiða niður áburðarverðið tímabundið til að létta bændum lífið við þessar erfiðu aðstæður. Það þarf að ganga vel úr skugga um að þær greiðslur sem berast úr Bjargráðasjóði komi beint til bænda sjálfra þannig að landbúnaðurinn og bændurnir og búvöruframleiðslan njóti þess sjálf og þetta sé þá raunverulega til þess fallið að lækka áburðarverðsreikninginn hjá bændum.

Það er alveg rétt sem hæstv. samgönguráðherra rakti og kom mjög vel fram í setningarræðu formanns Bændasamtakanna við setningu búnaðarþings 1. mars sl. að hækkun á áburðarverði getur orðið mjög háskaleg, ekki síst til lengri tíma litið. Ef bændur þurfa að fara að draga úr áburðargjöf þá mun það koma fram í minni uppskeru sem aftur mun hafa alvarleg áhrif á búvöruframleiðsluna þegar fram í sækir. Það er reynsla sem t.d. landbúnaður í öðrum löndum hefur upplifað, að alþjóðlegar áburðarverðshækkanir hafa leitt til þess að bændur hafa dregið úr áburðarkaupum, uppskera hefur minnkað og það hefur síðan haft áhrif á búvöruframleiðsluna. Það væri auðvitað mjög alvarlegur hlutur fyrir okkur og þess vegna verðum við að reyna að róa að því öllum árum að finna lausn til að það gerist ekki hér. Við megum ekki við því. Það er hluti af matvælaöryggi okkar að tryggja að búvöruframleiðslan geti haldið snurðulaust áfram og ég fagna því þegar reynt er að finna leiðir til að tryggja að svo megi verða.

Það er eitt í þessu sambandi sem ég held að skipti mjög miklu máli að menn fari mjög vandlega yfir. Það er raunar ekki hlutverk þingnefndarinnar í sjálfu sér að gera en ég tel að bæði Bændasamtökin og ráðuneytið, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gætu vel farið yfir að athuga hvernig verðmyndun á áburði í heiminum er háttað í raun og veru. Það er alveg ljóst að aðföng í áburðarframleiðslu hafa verið að lækka og ég hef fengið upplýsingar um að áburðarverð á heimsmarkaði hafi verið að lækka þó að þess hafi ekki gætt hjá okkur. Ég veit ekki nákvæmlega hver sannleikurinn er í þessum efnum en í ljósi þeirra upplýsinga sem mér hafa verið sendar finnst mér að ástæða sé til að yfirfara þessi mál mjög vandlega til að ganga úr skugga um að fyllstu hagkvæmni sé gætt við innkaup á áburði. Það væri auðvitað mjög alvarlegt ef íslenskur landbúnaður nyti ekki hagstæðasta verðs sem hægt er að fá, auðvitað að því tilskildu að sá áburður uppfyllti þau skilyrði sem við setjum varðandi áburð sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt.

Ég vildi nota tækifæri í þessari umræðu til að vekja sérstaka athygli á þessu. Það skiptir mjög miklu máli að við fylgjumst vel með áburðarverðsþróuninni á alþjóðlegum mörkuðum til að geta brugðist við og fylgst með og haft eitthvað um það að segja hvernig þau mál þróast innan lands ef hægt er að gera það.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að verði þetta frumvarp að lögum verður sú breyting á skipan Bjargráðasjóðs að hlutverk sveitarfélaganna hverfur. Þetta verður þá sjóður sem ríkið og bændur standa að og þess vegna er eðlilegt að hann fari undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið enda er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipi þriggja manna stjórn sjóðsins til fjögurra ára og tveir séu fulltrúar Bændasamtakanna en einn fulltrúi ráðherra sé formaður. Þetta er auðvitað allt saman eðlilegt í ljósi þeirra breytinga sem verið er að gera.

Annað atriðið sem skiptir miklu máli í samtímanum er að opnað sé á möguleika sjóðsins til að bregðast við með skammtímaúrræðum, bregðast við þeim miklu hækkunum sem eiga að verða á áburðarverði. Það er hins vegar ástæða til að árétta að þetta er auðvitað skammtímalausn. Það er líka ástæða til að árétta að það er augljóst að þarna verður ekki um stórar upphæðir að ræða sem gætu komið sem greiðslur til bænda þrátt fyrir allt. Því fer auðvitað víðs fjarri að sá vandi sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir vegna hækkandi aðfanga, sérstaklega vegna hækkandi áburðarverðs, sé á nokkurn hátt aflétt með þessu eða komið í veg fyrir hann. Hann verður hins vegar vonandi gerður aðeins léttbærari ef vel tekst til.

Áhyggjur mínar sem ég hef áður gert að umræðuefni, bæði við fyrri umræður og í máli mínu nú, snúa sérstaklega að því hvernig tryggt verði að þær greiðslur sem ætlað er að renni út úr Bjargráðasjóðnum berist til bænda og leiði í raun og veru til þess að afkoma bændanna sjálfra batni. Það er kjarni málsins og það er hið stóra verkefni sem menn verða að ráðast í og tryggja með öllum tiltækum ráðum að við náum árangri í.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég árétta að sú nefnd sem fær málið til umfjöllunar þarf að leggja fram upplýsingar um fjárhagsstöðu sjóðsins, hvernig efnahagsreikningur hans muni líta út, a.m.k. gróflega eftir þær breytingar sem hér er verið að gera grein fyrir. Það verður að liggja fyrir að sjóðurinn geti staðið undir þeim verkefnum sem honum er ætlað samkvæmt forskrift frumvarpsins þannig að ljóst sé að sjóðurinn sé til gagns og verði til gagns fyrir bændur. Ég ítreka að ég tel að þrátt fyrir að starfsemi sjóðsins hafi oft verið gagnrýnd þá hefur sjóðurinn gegnt mikilvægu hlutverki fyrir landbúnaðinn og það þarf að tryggja að þannig verði það um ófyrirsjáanlega tíð.

Ég ítreka því að ég fagna þeirri stefnubreytingu sem hefur orðið hjá hæstv. samgönguráðherra, að hverfa frá því að sjóðurinn sé lagður niður í þeirri mynd sem ætlunin var en fremur reynt að búa til nýjan ramma utan um hann þannig að hann geti áfram gegnt því hlutverki sem hann hefur, að koma til móts við bændur og landbúnaðinn þegar sérstaklega stendur á.