136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

kostnaður við stjórnlagaþing.

[13:43]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mjög mikilvægt er að hér verði sett á stjórnlagaþing og það hið fyrsta. Við framsóknarmenn viljum, eins og margir aðrir í samfélaginu, bæði pólitísk öfl og almenningur, aðgreina valdaþættina í íslensku samfélagi. Þeir eru ekki aðgreindir nógu vel í dag og m.a. þess vegna hefur farið illa í mjög mörgum málum. Það þarf að aðgreina löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið með betri hætti en nú er gert. Alþingi hefur því miður ekki risið undir því að breyta stjórnarskránni svo nokkru nemi. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar en þær hafa ekki verið mjög veigamiklar þannig að stjórnarskráin er mjög gamaldags og þess eðlis að við erum líklega að sóa talsverðum fjármunum. Við viljum skoða valdaþættina miklu betur og hvernig á að aðgreina þá. Það þarf líka að skoða hlutverk forseta Íslands og ég veit að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft sérstakan áhuga á því þannig að mikilvægt er að stjórnlagaþing komist á sem fyrst.

Ég velti því líka fyrir mér hversu mikla fjármuni þær máttvana tilraunir, sem hingað til hafa verið gerðar varðandi breytingar á stjórnarskrá, hafa kostað. Hvað ætli þær hafi kostað? (Gripið fram í.) Það er örugglega talsvert há upphæð. Ekki er ég að biðja um útreikninga á því en ég veit að það er talsvert há upphæð.

Virðulegi forseti. Ég treysti því að nefndin, sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir veitir forstöðu og er eina konan í, líti mjög vel yfir útreikninga fjármálaráðuneytisins, sem mér finnast reyndar háir og efast um ýmislegt sem þar kemur fram, eins og háan sérfræðikostnað. Ég tel að það þurfi að horfa á þessa umsögn og að sjálfsögðu að reyna að lækka kostnaðinn eins og hægt er. En við munum ekki komast fram hjá því að stjórnlagaþing mun að sjálfsögðu kosta eitthvað en það á líka að felast mikill sparnaður í því að fá nútímalega stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Það er mikill sparnaður í því, virðulegur forseti.