136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

kostnaður við stjórnlagaþing.

[13:50]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mér finnst mjög holur hljómur í gagnrýni Sjálfstæðisflokksins á þetta mál. Þegar málið hefur verið rætt opinberlega og hér í þessum sal hefur Sjálfstæðisflokkurinn talað um að það væri kannski í mesta lagi hægt að hafa stjórnlagaþing sem ráðgefandi þing. Ráðgefandi þing, fyrir hverja? Fyrir Alþingi? Það kostar væntanlega jafnmikið að hafa ráðgefandi þing og að hafa hefðbundið stjórnlagaþing. Það þarf þá að koma með ráð og tillögur hingað inn. Það kostar væntanlega jafnmikið. Sjálfstæðisflokkurinn vill greinilega ekki missa þau völd sem hann hefur haft á breytingum á stjórnarskrá. Þar liggur væntanlega hundurinn grafinn, virðulegur forseti. Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki missa þau völd sem flokkurinn hefur haft gagnvart breytingum á stjórnarskrá.

Nú ætla sjálfstæðismenn að beita sér á lokasprettinum á þessu þingi gegn því að við færum völdin til fólksins í landinu, að stjórnlagaþing starfi þar sem engir þingmenn verða kosnir inn, þeir verða ekki kjörgengir, hvorki þingmenn né ráðherrar, heldur fólkið í samfélaginu sem hefur örugglega mikla þekkingu og getu til að koma með tillögur um breytta stjórnarskrá og það þing starfi og leggi svo tillögur sínar fyrir þjóðina til synjunar eða samþykktar.

Ég tel þess vegna að við eigum að samþykkja stjórnlagaþing og koma því á sem fyrst og það eigi að taka völdin í sínar hendur varðandi breytingar á stjórnarskrá og þær fari svo í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég tel hins vegar að nefndin sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir veitir forstöðu eigi að skoða allar leiðir til sparnaðar í þessu. Það má t.d. alveg hugsa sér að þingið vinni í áföngum og (Forseti hringir.) það nýti húsnæði Alþingis í sinni vinnu. (Forseti hringir.) Mér finnst að það hljóti að koma til greina til þess að minnka kostnað.