136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

almenn hegningarlög.

127. mál
[17:29]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Mér er það mikið fagnaðarefni að sjá hér á þskj. 583 mál það sem hv. þm. Atli Gíslason talaði fyrir í seinni hluta ræðu sinnar, þ.e. lagafrumvarp um að kaup á vændi verði gert refsivert á Íslandi. Eins og kom fram í máli hv. 1. flutningsmanns er þetta mál flutt af þingmönnum stjórnarflokkanna tveggja ásamt þingkonum úr Framsóknarflokknum. Sú sem hér stendur hefur barist fyrir því að frumvarp af þessu tagi verði samþykkt og mér er sérstakt gleðiefni að nú sjái fyrir endann á þeirri baráttu. Satt best að segja hefur ríkt óútskýranleg tregða gagnvart þessu máli í heilan áratug hér á Alþingi Íslendinga en ég held að vinna okkar sem höfum verið baráttufólk fyrir þessari sænsku leið sanni að dropinn holi steininn og nú erum við að ná þessari miklu réttarbót í gegn.

Við skulum átta okkur á því að með samþykkt frumvarpsins er Alþingi að viðurkenna að vændi sé ákveðið birtingarform kynbundins ofbeldis. Það er með öðrum orðum staðfest að óásættanlegt sé í samfélagi okkar að líkamar geti gengið kaupum og sölum.

Fyrir nokkrum árum fékkst sú réttarbót í lög að afnumið var úr lögum að þær eða þau sem leiðast út í vændi séu sek og refsinæmi þess að selja aðgang að líkama sínum var afnumið. Það var góð réttarbót en þar með var óljóst hvar ábyrgðin af vændinu og þá um leið hinu kynbundna ofbeldi lægi. Það hefur alltaf verið trú mín að hún liggi einungis hjá þeim sem hefur valdið til að velja að kaupa sér ekki aðgang að líkama annarrar manneskju. Valið sé ekki fórnarlambsins eða þess sem leiðist út í vændi vegna þess að það val er alltaf neyð.

Það er ekki spurning um að fólk velji sér að stunda vændi og hafa það að atvinnu, það er einungis vegna þess að einhverra hluta vegna eru engar aðrar leiðir færar fyrir viðkomandi til að hafa viðurværi. Svo getum við farið út í það að ræða með hvaða hætti við getum aðstoðað og stutt fórnarlömb kynbundins ofbeldis, þar með talið þau sem leiðst hafa út í vændi, til sjálfshjálpar og þess að gerast virkir samfélagsþegnar á nýjan leik.

Mér er gleðiefni að segja frá því að á ríkisstjórnarfundi í morgun var, eins og hefur komið fram í fréttum í dag, kynnt aðgerðaáætlun gegn mansali, sem er líka langþráð, því að í desember 2007 var stofnaður starfshópur sem gert var að semja slíka aðgerðaáætlun. Það hefur tekið á annað ár að koma starfi þess starfshóps í höfn og virkilega ánægjulegt er að á sama degi og mælt er fyrir þessu máli á Alþingi Íslendinga skuli kynnt í ríkisstjórn Íslands aðgerðaáætlun gegn mansali þar sem það er skorinorður hluti af niðurstöðunni að kaup á vændi skuli gert refsivert á Íslandi.

Þetta er að mörgu leyti tímamótadagur því að nú tölum við hér einum rómi, ríkisstjórnin og löggjafarsamkundan, og það er mikið fagnaðarefni því að á það hefur skort hingað til.

Ég tek undir með hv. 1. flutningsmanni að þær áskoranir sem við höfum fengið um að fara þessa leið hafa verið mjög kraftmiklar í gegnum árin. Til viðbótar við þá áskorun sem hv. þingmaður nefndi og getið er um í greinargerð með frumvarpinu má geta þess að þann 6. þessa mánaðar barst þingmönnum áskorun um að banna kaup á vændi eða gera það refsivert. Þar eru gamalkunnug nöfn samtaka sem hafa verið virk í þessari baráttu frá upphafi vega, má segja, og hafa verið frumkvöðlar í þeirri baráttu en þar hafa líka bæst við nýir aðilar. Mig langar til að vitna í texta bréfsins sem við fengum þann 6. mars. Þar segir, með leyfi forseta:

„Því ber að fagna að enn einu sinni er komið fram á Alþingi frumvarp um að banna kaup á vændi. Að þessu sinni eru það nýmæli að þingmenn stjórnarflokkanna tveggja ásamt þingkonum Framsóknarflokks leggja fram frumvarpið og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að það verði afgreitt og samþykkt. Vændi er ein birtingarmynd kynferðisofbeldis gagnvart konum í vændi og því ber ábyrgðin að vera þeirra sem kaupa sér kynlífsþjónustu. Eftir að lögin voru endurbætt og konur í vændi eru ekki lengur sekar að lögum, sjáum við merki þess að vændi geti orðið útbreiddara en áður. Minnt skal á að útbreiddur og viðurkenndur klámiðnaður og vændi eru forsendur mansals og nær ómögulegt er að greina mansal frá annars konar kynlífsþjónustu. Við þessu þarf að bregðast.“

Ég tek heils hugar undir þá fullyrðingu sem hér stendur og er undirrituð af Stígamótum, Bríeti – félagi ungra femínista, Femínistafélagi Íslands, karlahópi Femínistafélagsins, Kvennaráðgjöfinni, Kvennakirkjunni, hópi 39 kvenna í kirkjunni, Kvenréttindafélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Samtökum um kvennaathvarf, Neyðarmóttöku vegna nauðgana, Menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna, Landssambandi framsóknarkvenna, Mannréttindaskrifstofu, UNIFEM á Íslandi og Samtökum kvenna af erlendum uppruna.

Ég held að barátta þessara samtaka sé að komast í höfn og þau eiga mikinn þátt í baráttunni. Þar hefur enginn dregið neitt af sér og ánægjulegt var hvernig samtökin brugðust við þegar Norðmenn gerðu svipaða lagabreytingu á síðasta ári, þá sáu íslenskar konur og baráttufólk úr þessum hreyfingum ástæðu til að fagna sérstaklega og kalla til fjölmiðla af því tilefni að Norðmenn höfðu stigið skrefið á eftir Svíum. Ég veit að þau samtök ásamt okkur, baráttufólkinu hér á þessari stofnun, eiga eftir að fagna þegar Ísland kemur í kjölfarið og verður þriðja landið á Norðurlöndum sem gengur alla leið í þeim efnum, að gera kaup á vændi refsiverð með þeim hætti sem hér er lagt til.