136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:02]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er akkúrat það sem þingflokkur framsóknarmanna er að gera með framlagningu þessa máls, koma með tillögur að lausnum, að lausnum á mjög erfiðri stöðu heimila og fyrirtækja. Það er einfaldlega ekki hægt að rökræða við hv. þingmann sem hefur ekki kynnt sér efnislega þær tillögur sem hér eru lagðar til sem færustu sérfræðingar hafa unnið að um margra vikna skeið. Hv. þingmaður getur einfaldlega ekki leyft sér að koma upp og slá þessar hugmyndir allar út af borðinu að óathuguðu máli, eins og ræða hans bar vott um.

Hv. þingmaður talaði um húsnæðismál og breytingar á lögum þeim sem Framsóknarflokkurinn stóð að á síðasta kjörtímabili. Ég minni hv. þingmann á að þær tillögur sem Framsóknarflokkurinn lagði fram um breytingar á lögum um húsnæðismál voru samþykktar af öllum þingmönnum á vettvangi Alþingis, þar á meðal hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins, þannig að ég held að hv. þingmaður ætti að líta sér nær þegar hann rifjar upp söguna og þegar við ræðum um húsnæðismál hér á landi. (GMJ: Ég var ekki …)

Ég ætla líka að minna hv. þingmann á að það var Framsóknarflokkurinn í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn sem stóð vörð um Íbúðalánasjóð. Við höfum viljað standa vörð um starfsemi Íbúðalánasjóðs og ætli það sé ekki svo í dag að íslenskur almenningur, húsnæðiseigendur, sé ánægður með að Íbúðalánasjóður sé til staðar í dag. Í raun og veru höfum við farið fram á það að bankakerfið íslenska muni haga sér með þeim hætti, líkt og Íbúðalánasjóður hefur gert gagnvart fólki í greiðsluerfiðleikum, að þær reglur sem gilda hjá Íbúðalánasjóði verði yfirfærðar til annarra ríkisbanka. Það er mikilvægt að menn komi fram af sanngirni við skulduga húsnæðiseigendur hér á landi og þar er Íbúðalánasjóður fyrirmynd, sjóður sem við framsóknarmenn höfum staðið dyggan vörð um og ég veit að hv. þingmaður hefur talað fyrir því að (Forseti hringir.) starfsemi hans verði haldið áfram.