136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

barnaverndarlög og barnalög.

19. mál
[18:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svör hv. framsögumanns félagsmálanefndar. Það er auðvitað rétt sem kom fram í máli hennar að það er mikilvægt að mál sem liggja á mörkunum milli verksviða einstakra nefnda séu rædd í samhengi. Ég játa reyndar að ég minnist þess ekki að farið hafi verið með efnislegum hætti í þetta mál í allsherjarnefnd heldur var málinu vísað yfir til félagsmálanefndar.

Hugsanlega eftir á að hyggja hefði verið eðlilegra að allsherjarnefnd gæfi sér tíma til að fara að einhverju leyti yfir þetta mál efnislega því auðvitað er um mikil tengsl að ræða við þau svið sem allsherjarnefnd hefur með höndum, bæði hvað varðar barnalög og eins varðandi almenn hegningarlög sem auðvitað eru á verksviði allsherjarnefndar. Hún fjallar um refsingar og þar auðvitað er ákveðin þekking og reynsla af því að takast á við slík mál.

Nú kemur það trúlega ekkert að sök í þessum efnum, vonandi ekki. Það kann að vera erfitt að sanna ákveðin brot í þessu sambandi og hugsanlega erfiðara en í mörgum öðrum tilvikum, sérstaklega þegar ekki er um að ræða neina líkamlega áverka eða neitt þess háttar og ekki eru vitni. En engu að síður er mikilvægt að hagsmuna barna sé gætt í þessum tilvikum og að löggjafinn taki skýrt á slíkum málum. Eins og sá dómur sem vitnað hefur verið til í umræðunni og í nefndarálitinu ber vitni um þá hafa lögin trúlega ekki verið nægjanlega skýr að þessu leyti og á grundvelli óskýrra lagaákvæða (Forseti hringir.) er ekki hægt að dæma til refsinga.