136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

könnun á greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.

400. mál
[15:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það kom svo sem ekki á óvart að hæstv. ráðherra og hv. þingmaður hefðu líka áhyggjur af stöðu heimilanna og þeim stóra hópi sem horfir fram á vanda núna. Ég var að vonast til þess, sérstaklega vegna þess að þessi fyrirspurn er búin að liggja hér í nokkrar vikur, að það yrði meira um svör, virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn sem sett var á laggirnar átti að ganga í hlutina hratt og vel og fara í bráðaaðgerðir sem snúa að heimilunum og fyrirtækjunum.

Það er gott að það er von á lausnum. Ég heyrði að hæstv. ráðherra gat fundið ýmislegt til foráttu þeirri hugmynd sem ég lagði til og það er allt í lagi, að því gefnu að það komi betri lausnir. Fram kom í máli hæstv. ráðherra að verið er á taka á því sem snýr að erlendu lánunum en hæstv. ráðherra talaði um að uppi væru tillögur sem ég vona að snúi að fleirum en bara þeim sem eru með erlend lán því að þeir eru ekki eina fólkið sem á í greiðsluerfiðleikum miðað við þá stöðu sem er núna.

Ég er ekki sammála því að gallarnir felist í því að endursemja þurfi um eingreiðslurnar. Það er útfærsluatriði en það vantar ef til vill samkeppni um hugmyndir. Ef núverandi ríkisstjórn og hæstv. ráðherra eru með góðar hugmyndir hvet ég hæstv. ráðherra til að liggja ekki á þeim, heldur að koma þeim í framkvæmd. Ég lofa því að við sjálfstæðismenn munum styðja góðar hugmyndir hvað þetta varðar. Við erum búin að lýsa því yfir hvað eftir annað að við erum tilbúin til þess að flýta málum sem lúta að því að hjálpa heimilunum í landinu en því miður hefur ekki reynt á það. Ég vonast til þess að ekki líði allt of margir dagar þangað til þær hugmyndir koma fram því að það liggur svo sannarlega á og menn hafa haft (Forseti hringir.) drjúgan tíma til þess að vinna úr málum.