136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[18:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti og fleira, það sem lýtur að greiðsluaðlögun, nú í 3. umr. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, hefur gert grein fyrir framhaldsnefndaráliti vegna málsins sem endurspeglar, eins og fram kemur, afstöðu allrar nefndarinnar til málsins. Um þetta mál hefur verið prýðileg samstaða í nefndinni á öllum stigum þess. Það hefur vissulega verið um það að ræða að í ferli málsins hefur þurft að fjalla um marga tiltölulega flókna þætti sem lúta að fullnusturéttarfari og skyldum atriðum réttarins. Þetta eru atriði sem að sumu leyti fara nokkuð í bága við hefðbundið fullnusturéttarfar. Um frávik er að ræða sem auðvitað krefjast sérstakrar umhugsunar.

Greiðsluaðlögunin er nýtt úrræði í okkar réttarfari. Eins og fram kom skýrt við 2. umr. málsins þá var um það að ræða að menn stóðu frammi fyrir þeirri spurningu hvort fjalla ætti um greiðsluaðlögun í sérstökum lögum eða hvort fella ætti breytingar inn í aðra lagabálka. Eftir að menn höfðu velt því töluvert fyrir sér varð sú niðurstaða sem hér birtist.

Í þessu máli kom upp sú tillaga milli 1. og 2. umr. að breyta því hver færi með hlutverk umsjónarmanns með greiðsluaðlögun. Fram komu hugmyndir um að þetta verkefni yrði á hendi sýslumanns eða sýslumanna og voru vangaveltur um það að ákveðnir þættir í þessu gætu fallið vel að verksviði sýslumanna og eins væri ákveðið öryggi fyrir þá sem leita eftir þessu úrræði að geta átt samskipti við opinberan embættismann í þessu sambandi. Það væri meiri möguleiki á því að um samræmda málsmeðferð yrði að ræða og trygging fyrir því að viðkomandi gæti fylgt málum eftir frekar heldur en ef málið færi út til lögmanna eins og á náttúrlega við þegar um er að ræða aðstoðarmenn í greiðslustöðvun og umsjónarmenn með frjálsum nauðasamningum og svo framvegis. Þessi hugmynd var rædd töluvert í nefndinni, að fá sýslumenn í þetta hlutverk, og má segja að það hafi verið afgreitt út úr nefndinni milli 1. og 2. umr. kannski í aðeins of miklu snarhasti. Að minnsta kosti fengum við ýmsir í nefndinni ákveðna bakþanka út af þessu og óskuðum þess vegna eftir því við 2. umr. að málið kæmi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. sem var gert.

Eins og formaður nefndarinnar gerði grein fyrir í framsöguræðu sinni þá var þetta atriði helst til skoðunar í störfum nefndarinnar, spurningin um það hvort verkefnið ætti í rauninni, bara til að gera hlutina einfaldari, hvort verkefni ætti að liggja hjá sjálfstætt starfandi lögmönnum eða hjá sýslumönnum.

Niðurstaðan var sú að sú breyting að fela sýslumanni eða sýslumönnum þetta hlutverk varðandi þetta nýja réttarúrræði þarfnaðist meiri undirbúnings heldur en hér hafði átt sér stað, það þyrfti að skoða útfærsluna á þessu betur og undirbúa breytinguna betur og þess vegna væri ekki ráðlegt fyrst um sinn að stíga þetta skref. Þess vegna má segja að nefndin hafi tekið að minnsta kosti hálft skref til baka frá því sem gerðist milli 1. og 2. umr. og ákveðið að fela sjálfstæðum lögmönnum þetta verkefni fyrst um sinn án þess þó að útiloka að sýslumenn geti komið að þessu verkefni síðar þegar undirbúningsvinna hefur átt sér stað eins og nauðsynlegt er. Rökstuðninginn fyrir þessari niðurstöðu er að finna í fyrsta kafla nefndarálitsins þar sem vísað er til þess að mikið ríði á að greiðsluaðlögunarferlið geti hafist sem allra fyrst og því teldi nefndin rétt að lögmenn hafi þetta hlutverk með höndum fyrst um sinn og vísað til reynslu þeirra af búskiptum og þrotameðferð sem nýtist vel í störfum umsjónarmanns.

Síðan er gerð grein fyrir ákveðinni breytingu, að það er sett hámark á greiðslu fyrir umsjón með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar. Reyndar er gert ráð fyrir því að dómari hafi með höndum ákvörðun þessarar greiðslu en upphæðin verði þó ekki meiri en 200 þús. kr. Þarna er um að ræða ákveðna varnaðarreglu gegn því að þeir sem gegna hlutverki umsjónarmanns í þessum tilvikum geti, ef svo má segja, skammtað sér laun sjálfir fyrir þessa vinnu, að það sé ekki ótakmarkað hvað sé hægt að taka í þessu sambandi. En ef við veltum fyrir okkur þeim mismunandi málum sem kunna að koma upp í þessu sambandi þá liggur fyrir að greiðsluaðlögunarmál geta verið misjafnlega flókin og umfangsmikil eftir aðstæðum þeirra sem leita eftir greiðsluaðlögun. Það getur bæði verið um tiltölulega mjög einföld mál að ræða og eins mjög flókin. Auðvitað koma þau til með að krefjast mismikillar vinnu og þess vegna er eðlilegt að það sé ákveðið svigrúm sem dómari hafi frekar heldur en að hafa fasta upphæð. Hámarkið hins vegar ætti ekki að þurfa að koma að sök vegna þess að það má ætla að verkefnið muni fyrst og fremst verða á hendi lögmanna eða lögmannsstofa sem sérhæfa sig á þessu sviði og verða þess vegna tiltölulega fljótar að koma sér upp mikilli reynslu í þessu. Því má ætla að margir þættir í störfum umsjónarmanna að þessu leyti verði tiltölulega rútíneraðir, ef svo má segja, og eigi ekki að taka langan tíma. Hins vegar er alltaf umhugsunarefni að setja svona upphæðir inn í löggjöf. En fyrst um sinn alla vega var nefndin sammála um að setja þetta 200 þús. kr. hámark. En auðvitað verður Alþingi að vera tilbúið til þess að taka slíkar upphæðir til endurskoðunar síðar meir ef fram koma rök fyrir því að þessi upphæð sé ekki í samræmi við þá vinnu sem liggur að baki þessum málum.

Við erum að stíga ný skref hér á landi í þessum efnum. Við erum að fara út í að bjóða upp á nýtt úrræði og þess vegna eru ákveðnir óvissuþættir í sambandi við framkvæmdina, í sambandi við útfærsluna. Við kunnum að standa frammi fyrir því eftir nokkurra mánaða eða árs reynslu eða hvað það verður að einstök útfærsluatriði sem við setjum fram í lögunum að þessu sinni þarfnist endurskoðunar. Við eigum þá að vera reiðubúnir að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru. En þetta 200 þús. kr. hámark er alla vega sú tillaga sem allsherjarnefnd telur eðlilegt að leggja til hér við 3. umr. og leggur fyrir þingið.

Í nefndarálitinu er einnig gert ráð fyrir mjög áhugaverðri umræðu sem átti sér stað á vettvangi nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Að þessum málum hafði nú reyndar verið vikið líka í fyrri nefndarstörfum um málið. Þá er ég að vísa til umræðu um réttaráhrif nauðasamnings til greiðsluaðlögunar gagnvart þriðja manni. Vakin var athygli þarna á ákveðnu samspili við frumvarp um ábyrgðarmenn sem viðskiptanefnd var með í meðferð á þessum sama tíma og við vorum reyndar að greiða atkvæði um hér áðan eftir 2. umr. Vakin var athygli á því að það þyrfti að skoða samspil þessara frumvarpa því ætla má að þau muni verði lögfest bæði á svipuðum eða sama tíma. Efnislega eiga þau margt sameiginlegt þannig að reynt getur á ákvæði þeirra beggja.

Niðurstaða nefndarinnar í þessu atriði var sú að eðlilegt væri ef við erum að tala um stöðu ábyrgðarmanns í þessu efni að ef greiðsluaðlögun leiddi til þess að krafa yrði lækkuð gagnvart aðalskuldara eða skuldaranum sjálfum þá mundi krafan lækka með sama hætti gagnvart ábyrgðarmanni. Þar er auðvitað um það að ræða að í þessu tilviki virðist það rökrétt niðurstaða vegna þess að ella gæti skapast sú staða að ábyrgðarmaður ætti endurkröfurétt á aðalskuldara vegna allrar upphæðarinnar og það mundi leiða til þess að greiðsluaðlögunin sem slík næði ekki tilgangi sínum, þetta væri komið í hálfgert öngstræti miðað við markmið frumvarpsins og þessa úrræðis.

Hins vegar verður að hafa í huga, eins og nefndin vekur athygli á í þessu sambandi, að sú breyting sem þarna er lögð til haggar í engu rétti kröfuhafa samkvæmt gildandi löggjöf til að beina kröfum fyrst að þeim skuldara sem hann telur líklegastan til að greiða kröfu. En þar getur auðvitað í ákveðnum tilvikum verið um ábyrgðarmenn að ræða enda er litið svo á að ábyrgðarmenn sem ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð séu skuldarar til jafns við hinn eiginlega lántakanda eða skuldara.

Það verður að viðurkennast að þetta kann auðvitað að leiða til þess að kröfuhafar sem telja minni líkur á því að hinn eiginlegi skuldari eða lántakandi sé borgunarmaður fyrir kröfunni muni áfram geta beint kröfu sinni að ábyrgðarmanni sem talinn er líklegri borgunarmaður. En fram hjá því verður ekki komist í þessu þó það sé ástæða til að hafa í huga að staða ábyrgðarmanna breytist að mörgu leyti með nýrri löggjöf um ábyrgðarmenn sem þingið er að ljúka við nú akkúrat á þessum dögum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjalla nánar um þetta frumvarp að svo stöddu. Ég vil undirstrika að það hefur verið samstaða um það í nefndinni að vinna að því markmiði að hægt yrði að bjóða upp á greiðsluaðlögun sem úrræði fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum hér á landi, þar væri um að ræða úrræði sem kæmi til þegar skulda- og greiðslustaða manna er erfið og staðan jafnvel orðin svo slæm að gjaldþrot blasi við. En auðvitað þegar þetta úrræði er komið þá er hægt að fara miklu vægari leið heldur en gjaldþrotaleiðina, leið sem er auðveldari fyrir skuldarann en um leið til þess fallin að tryggja að hagsmunir kröfuhafa verði ekki fyrir borð bornir og ekki síst að greiðsluvilja skuldarans sé viðhaldið þannig að greiðsluviljinn, sem er auðvitað og mikilvæg forsenda fyrir eðlilegum lánaviðskiptum, verði áfram til staðar því auðvitað getur sú staða komið upp þegar menn eru komnir í öngstræti með sín fjármál og horfa fram á gjaldþrot og langvarandi erfiðleika að greiðsluviljinn falli niður og þá kann meira að tapast en ella. Þess vegna er mikilvægt, sérstaklega á tímum þeirra efnahagsþrenginga sem við eigum við að glíma í dag, að boðið verði upp á þetta (Forseti hringir.) úrræði.