136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:42]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef tekið þátt í umræðunni um frumvarpið, bæði við 1. umr. og núna við 2. umr., og lagt mig fram um að gera það á málefnalegan hátt og taka málefnalega afstöðu til þessara viðfangsefna sem lúta að listamannalaunum. Ég vil lýsa alveg sérstakri óánægju minni með að hæstv. menntamálaráðherra, eins og reyndar ráðherrar ríkisstjórnarinnar og ekki síst ráðherrar Vinstri grænna, nota hvert einasta tækifæri til að reyna að berja því inn í höfuðið á þjóðinni að bankahrunið og allt það vandamál sem hefur fylgt því sé Sjálfstæðisflokknum að kenna. Er það Sjálfstæðisflokknum að kenna að bankarnir í Danmörku og í Bandaríkjum Norður-Ameríku hafa hrunið hver af öðrum um alla Evrópu? Er það Sjálfstæðisflokknum að kenna? (KVM: Nei, frjálshyggjunni.) Hv. þingmaður sem nú er genginn til liðs við Frjálslynda flokkinn, Karl V. Matthíasson, hefur skýran skilning á þessu öllu saman. Það er mjög gott að geta kennt einhverjum um. Það hefur aldrei verið stórmannlegt og ég vil rifja það upp í tengslum við þessa umræðu og mótmæla aftur málflutningi hæstv. menntamálaráðherra. Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir uppbyggingu samfélagsins og byggði upp innviði vegna breytinga á samfélaginu þar sem lögð var áhersla á að skapa verðmæti og sinna skynsamlegum ríkisrekstri og reyna að hafa hóf á útgjöldum ríkisins. Þess vegna tókst okkur að borga niður skuldir og þess vegna stóð ríkissjóður betur til að takast á við það hrun og þau vandræði sem fylgdu hinni alþjóðlegu bankakreppu.

Það er alveg nauðsynlegt að hamra á þessu vegna þess að ég er ansi hræddur um að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar núverandi ríkisstjórnar og stuðningsmenn hennar eigi eftir að átta sig á því að í mörg horn er að líta við stjórn samfélagsins og þeir eiga eftir að finna það á eigin skinni að ekki er endalaust hægt að kenna Sjálfstæðisflokknum um.

Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að ganga fram á málefnalegri hátt þegar verið er að ræða um hluti eins og menningarmál og menntamál og spara sér þá sérstöku ánægju að gera tilraun til að kenna sjálfstæðismönnum um allt sem afvega hefur farið á undanförnum árum. Ég er stoltur af því sem við sjálfstæðismenn höfum staðið fyrir við uppbyggingu íslenska samfélagsins og ég læt ekki Vinstri græna brjóta það niður.