136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[22:03]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson, sem rétt í þessu lauk máli sínu, hafði nokkur orð um að það væri fagnaðarefni að væntanlegur þingmaður Reykvíkinga, hv. þm. Ólöf Nordal, væri mikill talsmaður landbúnaðarins og bænda. Það þarf ekki að koma á óvart, hvorki það sem snýr að hv. þm. Ólöfu Nordal — við þekkjum öll sjónarmið hennar og jákvæð viðhorf gagnvart landbúnaðinum — en einnig að við vitum að landbúnaðurinn hefur, þó margir ímyndi sér eitthvað annað, notið mikils stuðnings þingmanna á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur komið glögglega fram.

Í þeim umræðum sem farið hafa fram á undanförnum árum um landbúnaðarmál hefur komið mjög skýrt fram hér í þinginu að það er mikill vilji til þess að styðja vel við íslenskan landbúnað. Menn gera sér mjög vel grein fyrir þýðingu hans, ekki síst við þær aðstæður sem við búum við núna.

Ég hef því aldrei borið kvíðboga fyrir því að ekki sé mikill pólitískur vilji til þess að styðja vel við íslenskan landbúnað. Við vitum að vísu að oft er uppi neikvæður áróður gagnvart landbúnaðinum og hann ekki mjög sanngjarn. En það hefur ekki breytt því að þegar til stykkisins hefur komið hafa menn staðið saman um að verja hagsmuni landbúnaðarins vegna þess að það eru hagsmunir þjóðarinnar líka.

Af því að hv. þingmaður setti þetta sérstaklega í samhengi við Reykjavík, þar sem menn láta sér kannski ekki detta landbúnaður strax í hug þegar við ræðum um atvinnuvegi Reykvíkinga, vil ég nú samt sem áður vekja athygli á því að Reykjavík er samt sem áður landbúnaðarhérað því að með sameiningu við Kjalarnes hefur orðið til heilmikill landbúnaður í Reykjavík. Hann er kannski ekki endilega hefðbundinn í þeim skilningi sem menn leggja í það orð. (Gripið fram í: Jú, líka.) En þar er þó stundaður mjög mikilvægur landbúnaður sem margir að vísu vildu feigan. Uppi voru miklar hugmyndir, m.a. hjá Samfylkingunni, um að hverfa frá stuðningi við hvíta kjötið en sem betur fer varð það ekki niðurstaðan.

Eftir sem áður heldur landbúnaður á þessu sviði áfram sem skiptir mjög miklu máli. Menn skulu líka átta sig á því að ef veikja á samkeppnisstöðu hvíta kjötsins mun það hafa áhrif á stöðu annarrar kjötframleiðslu í landinu, fyrir utan það sem formaður Bændasamtakanna, Haraldur Benediktsson, sagði í setningarræðu á búnaðarþingi 1. mars síðastliðinn. Hann vakti athygli á því að þegar grannt væri skoðað mætti ætla að um 1.400 manns — ef ég man þessar tölur rétt — hefðu beina afkomu sína af starfsemi sem tengdist landbúnaði með einum eða öðrum hætti á höfuðborgarsvæðinu, bæði með hefðbundnum landbúnaði og úrvinnslu, markaðssetningu og ýmsu öðru sem honum tengdist. Það segir okkur að þýðing landbúnaðarins er meiri en menn gera sér almennt grein fyrir.

En ég vil líka árétta að það er mjög þýðingarmikið að við reynum að styðja sem mest við landbúnað, sérstaklega við þær aðstæður sem núna eru. Það er alveg rétt sem komið hefur fram í þessari umræðu, tilefni þess að við ræðum þessi mál nú er að aðföng til landbúnaðarins hafa hækkað svo mikið en því miður hefur ekki verið hægt að velta þeim kostnaði af herðum bænda út í verðlagið eða að mæta honum með öðrum hætti. Þess vegna hafa bændur af mjög litlum efnum orðið að taka þessar verðhækkanir á sig.

Ég vil líka segja, eins og ég nefndi þegar ég tók til máls við 1. umr. þessa máls, að það er fagnaðarefni að þessi niðurstaða skuli þó vera komin varðandi löggjöfina um Bjargráðasjóð. Uppi voru hugmyndir um að leggja þennan sjóð algerlega niður en það hefði ég talið mikið feigðarspor. Í tíð síðustu ríkisstjórnar starfaði nefnd þar sem sátu m.a. fulltrúar ráðuneyta og hagsmunaaðila sem fóru yfir framtíðarhlutverk Bjargráðasjóðs. Í miðju starfi þeirrar nefndar var ákveðið mjög skyndilega að taka verkið úr höndum nefndarinnar og leggja fram frumvarp sem hefði falið í sér að sjóðurinn yrði lagður niður í þáverandi mynd, sem hefði að mínu mati verið mjög óheppilegt ef það hefði náð fram að ganga, einfaldlega vegna þess sem komið hefur fram, að það er ríkur vilji, m.a. í landbúnaðargeiranum, að halda áfram starfsemi Bjargráðasjóðs þótt í breyttri mynd sé.

Við vitum að heilmikill ágreiningur hefur verið um starfsemi Bjargráðasjóðs. Það hefur t.d. ekki verið algerlega ágreiningslaust meðal bænda hvernig starfsemi hans eigi að vera háttað eða hvort hann eigi yfir höfuð rétt á sér. Mikill meiri hluti íslenskra bænda vill viðhalda starfsemi Bjargráðasjóðs þótt það verði ef til vill í nokkuð breyttri mynd. Við vitum líka að sveitarfélögin hafa talið að aðkoma þeirra að fjármögnun þessa sjóðs sé óeðlileg. Ég tel að þegar allt er skoðað sé sú niðurstaða sem fengist hefur hér í meginatriðum skynsamleg. Hún byggist á ákveðinni sátt um að sveitarfélögin fari úr sjóðnum, taki á sig tilteknar skuldbindingar og fái með sér þær eignir sem þeim ber. Eftir sem áður starfar sjóðurinn, í breyttri mynd þó þannig að hann hefur tvenns konar tekjustofna, annars vegar framlag ríkisins þar sem ríkið kemur að tryggingarsjóðnum — við getum sagt að það sé fyrir landbúnaðinn að nokkru leyti — og síðan er hann fjármagnaður með hluta af búnaðargjaldi, eins og allir vita, sem er innheimt af söluvörum landbúnaðarins. Landbúnaðurinn stendur því í sjálfu sér undir tekjustreymi til sjóðsins.

Það held ég að sé eðlilegt fyrirkomulag og við vitum að oft og tíðum hefur Bjargráðasjóður verið mjög mikilvægur, t.d. í harðindaárum, kalárum, og hefur þá komið þar að málum sem ella væri ekki hægt að bæta. Við vitum að þegar svona hlutir gerast, eins og t.d. kal í túnum eða eitthvað álíka, er ekki hægt að kaupa sér tryggingar út á slíkt. Þess vegna er nauðsynlegt að við höfum til staðar einhver úrræði til þess að bregðast við og koma íslenskum bændum til hjálpar.

Ég tel því að þetta sé skynsamleg niðurstaða sem fengist hefur og er hún mjög í samræmi við það sem menn hafa verið að tala um innan landbúnaðarins. Ég lýsti því strax yfir við 1. umr. málsins að ég væri jákvæður gagnvart þeim breytingum sem verið væri að kynna.

Það er alveg rétt sem komið hefur fram í þessari umræðu, og ég drap reyndar aðeins á, að ein ástæðan fyrir því að við ræðum þessi mál er að það hafa orðið gríðarlegar hækkanir á aðföngum til landbúnaðarins. Þar vegur þyngst hækkun á áburðarverði þótt ýmislegt annað komi til. Við vitum að hækkun eldsneytisverðs hefur haft mjög neikvæð áhrif fyrir landbúnaðinn. Eldsneytið er mikilvægur þáttur í dreifbýlum héruðum þar sem menn þurfa oft og tíðum að nota framleiðslutæki og fara um langan veg og þegar eldsneytið hækkar kemur það illa niður á landbúnaðinum. Síðan hafa orðið hækkanir á ýmsum öðrum aðföngum, korni og fóðri og slíku, og hafa verið mjög íþyngjandi fyrir landbúnaðinn.

Að einhverju leyti hefur verið brugðist við þessu með þeirri opinberu verðlagningu sem átt hefur sér stað á mjólk þar sem menn hafa getað verðlagt afurðir sínar til að mæta þessu þó að það hafi aldrei verið gert að fullu. En við vitum að í öðrum greinum eins og t.d. í lambakjötsframleiðslunni hafa verðhækkanirnar því miður ekki dugað til þess að vega upp á móti þeim kostnaðarauka sem orðið hefur í sauðfjárræktinni. Þolir sú grein síst af öllu að taka á sig óbættar eða lítt bættar kostnaðarhækkanir sem hafa verið mjög íþyngjandi.

Síðast en ekki síst hefur áburðurinn hækkað gífurlega á undanförnum árum. Hann hefur ekki bara hækkað um 700 millj. kr. á þessu ári, á milli ára, ef við skoðum þar tveggja ára tímabil, í fyrra og núna, má áætla að kostnaðarauki landbúnaðarins vegna hækkandi áburðarverðs sé í kringum 2 milljarðar kr.

Í minni tíð sem landbúnaðarráðherra var farið mjög rækilega yfir, m.a. í samráði og samstarfi við Bændasamtökin, hvort hægt væri með einhverjum hætti að koma til móts við bændur, t.d. með því að niðurgreiða áburðarverð. Við treystum okkur ekki til þess að fara í þá aðgerð, ekki vegna þess að það væri ekki pólitískur vilji til staðar eða að menn teldu það eftir sér að grípa til slíkra úrræða. Það sem menn höfðu mestar áhyggjur af var að ekki var hægt að tryggja að inngrip ríkisins í áburðarverðið, t.d. með niðurgreiðslum, skilaði sér endilega til bændanna sjálfra.

Við þurfum að gefa því gaum nú þegar við ræðum breytingar á lögum um Bjargráðasjóð. Breytingarnar fela ekki aðeins í sér að sveitarfélögin fari út úr starfsemi sjóðsins og ríkið og bændur taki yfir hana að öllu leyti. Gert ráð fyrir því að opnað verði á nýjar heimildir fyrir Bjargráðasjóð til að koma landbúnaðinum til hjálpar, ekki bara með þeim hætti sem tíðkast hefur undanfarin ár og áratugi heldur með því að Bjargráðasjóður geti greitt niður áburðarverð, þótt tímabundið sé, til þess að takast á við þann hækkanakúf sem myndast hefur vegna mikilla hækkana á áburðarverði.

Stóra hættan er að niðurgreiðslurnar nýtist ekki bændunum sjálfum heldur geti þær lent í höndum milliliðanna sem skili þeim ekki í formi lækkandi verðs til bænda sjálfra. Það er það sem stjórnvöld og bændur þurfa að reyna að tryggja að gerist ekki. Menn verða að vinna að því að það gerist ekki vegna þess að til þess er leikurinn gerður, að tryggja að landbúnaðurinn sjálfur njóti þessara áburðarniðurgreiðslna sem þarna er gefin heimild fyrir, sem ég tel skynsamlegt og réttlætanlegt við þessar aðstæður. Það er ef til vill auðveldara við núverandi aðstæður, sérstaklega á þessu ári. Nú liggur fyrir útgefið listaverð á áburði frá áburðarsölunum í landinu þannig að við vitum hvert áætlað söluverð er. Þess vegna ætti verða hægt að tryggja það með skilvirkari hætti að greiðslurnar renni beint til bændanna. Og það er auðvitað það sem við verðum að leggja okkar traust á.

Menn mega þó ekki búast við of miklu af þessari lagasetningu. Það er alveg ljóst mál að þeir fjármunir í Bjargráðasjóði sem menn ætla til þessa verkefnis eru ekki mjög miklir í hlutfalli við þær gríðarlegu hækkanir sem ég vakti athygli á. Við náum alls ekki að mæta þeirri 2 milljarða hækkun á áburðarverði sem dunið hefur yfir íslenska bændur. Hér er um að ræða miklu lægri tölur. En auðvitað má segja að þetta sé góð viðleitni til þess að bregðast við. Þetta eru þau úrræði sem m.a. Bændasamtökin hafa bent á og ég tók undir á sínum tíma. Ég lýsti mig reiðubúinn að vinna að því á sínum tíma þegar ég var landbúnaðarráðherra þótt mig þryti örendið til að ljúka því máli áður en það var fullbúið.

Ég er almennt séð jákvæður gagnvart þessu frumvarpi eins og ég lýsti í 1. umr. og lýsi yfir stuðningi við það. Ég tel að það sé til gagns eins og það er lagt fram.

Ég vil líka vekja athygli á því að þegar við ræðum þessi mál verðum við að fjalla um afkomu landbúnaðarins í heild og í einhverju samhengi. Við vitum að afkoma landbúnaðarins hefur alls ekki verið viðunandi á undanförnum árum. Að vísu hafa margir jákvæðir hlutir gerst í landbúnaðinum upp á síðkastið. Hann hefur orðið æ fjölbreyttari, bændur hafa leitað sér nýrra tekjumöguleika og það þekkjum við. Það hefur, ásamt öðru, orðið til þess að líf hefur kviknað í sveitunum og bændur hafa tekist á við ný verkefni sem eru spennandi og gefið mönnum nýjar tekju- og atvinnumöguleika. Þrátt fyrir að hefðbundinn búskapur, sauðfjárbúskapur og kúabúskapur, hafi breyst og framleiðsluheimildir hafi þjappast saman hafa menn fundið sér nýja tekjumöguleika sem hægt væri að telja upp í alllöngu máli.

Það breytir ekki því að afkoma bænda hefur verið slök. Þegar bankahrunið varð í byrjun október hafði ég samband við forustumenn bænda til þess að ræða þau mál, hvernig við gætum reynt í þeim darraðardansi að tryggja sem best fæðuöryggi þjóðarinnar, framleiðslumöguleika landbúnaðarins og afkomumöguleika greinarinnar. Við vitum auðvitað að það hefur verið heilmikil fjárfesting í landbúnaðinum sem er forsenda þeirra framfara sem þar hafa orðið. Ungir bændur hafa verið að hasla sér völl og auka framleiðslurétt sinn. Þeir hafa fjárfest í nýrri tækni á mörgum sviðum sem hefur leitt til framfara í landbúnaðinum. Það hefur hins vegar orðið til þess að mörg býli eru skuldug, sum með erlend lán, og auðvitað vonum við að styrking krónunnar til lengri tíma — þótt hún hafi gengið eitthvað til baka í þessari viku — verði til þess að þær skuldir lækki að nýju. En það breytir ekki því að menn sitja uppi með þessar drápsklyfjar, annars vegar af erlendri skuldsetningu og hins vegar af hinum dýru lánum sem eru í boði núna.

Í framhaldi af viðræðum okkar við Bændasamtökin fóru fulltrúar landbúnaðarráðuneytisins og Bændasamtakanna á fund allra viðskiptabankanna þriggja, ríkisbankanna, til þess að ræða almennt um stöðu landbúnaðarins. Það er skemmst frá því að segja að viðbrögð bankanna voru mjög jákvæð. Þeir gerðu sér grein fyrir þýðingu landbúnaðarins og þess að við héldum áfram öflugri matvælaframleiðslu hér á landi og ber vissulega að þakka það. Þeir gera sér grein fyrir því að landbúnaðurinn er öflug og lífvænleg atvinnugrein sem nauðsynlegt er að styðja við bakið á.

Ég veit ekki betur en að það hafi verið gert t.d. með því að frysta erlend lán og með skuldbreytingum og öðrum slíkum aðgerðum sem bankarnir hafa á sínu færi og með því að tryggja að landbúnaðurinn fái fjárhagslega fyrirgreiðslu, t.d. til þess að standa undir áburðarkaupum.

Ég hvatti hæstv. landbúnaðarráðherra við þessa umræðu á sínum tíma til að ræða um þetta á ný fyrir vorið til að tryggja að kaup á aðföngum sem núna eru í landbúnaðinum geti gengið snurðulaust fyrir sig. Það er ákaflega þýðingarmikið til þess að halda á floti þessari mikilvægu atvinnugrein og styrkja hana.

Segja má að það sé skammgóður vermir að fá lánafyrirgreiðslur við þessar aðstæður þegar vextir eru á þriðja tug prósenta og maður gerir sér grein fyrir því að við svo búið má ekki standa lengi. Við sjáum núna að verðbólga fer mjög ört minnkandi í landinu. Hún minnkar miklu hraðar en menn gerðu ráð fyrir. Það mun í fyrsta lagi valda því að sú skerðing sem við urðum að grípa til við fjárlagagerðina núna í haust verður minni en ella. Það er alveg ljóst að verðlagsforsendur verða betri þegar líður á þetta ár en menn unnu að fjárlagagerð á síðastliðnu hausti. Hin raunverulega skerðing vegna ákvarðana okkar í fjárlögum á síðastliðnu hausti verður því hlutfallslega minni en menn höfðu áætlað og er það vel. Það var það sem við höfðum vonast til.

Skerðingin verður hlutfallslega minni en jafnvel bjartsýnustu menn þorðu að vona. Það er auðvitað jákvætt. Lækkun á verðbólgunni, eins og gerðist í verðhjöðnuninni í síðasta mánuði, mun gera það að verkum að það verður óhjákvæmilegt að hin nýja, merka peningamálastefnunefnd Seðlabankans sem á að koma saman núna eftir fáeina daga manni sig upp í að efna til alvörulækkunar á stýrivöxtum sem mun þá lækka vaxtakostnað heimila og atvinnulífsins, ekki síst landbúnaðarins. Við skulum ekki gleyma því að til að mynda afurðastöðvar landbúnaðarins eru býsna fjármagnsfrekar. Framleiðslan í sláturhúsunum og afurðastöðvunum fer fram á tiltölulega skömmum tíma og menn þurfa að bera háan birgðakostnað af því. Þess vegna skiptir mjög miklu máli fyrir atvinnulífið í heild ef hægt er að lækka vaxtastigið í landinu en alveg sérstaklega fyrir landbúnaðinn og afurðastöðvar hans.

Virðulegi forseti. Hægt væri að hafa nokkuð langt mál um allt það sem ég hef gert að umræðuefni. Það ætla ég mér ekki að gera enda er tími minn brátt á þrotum. Ég vildi fyrst og fremst árétta að ég styð frumvarpið eins og það er lagt fram. Það er mjög í samræmi við það sem ég talaði sjálfur fyrir á sínum tíma. Ég fagna því alveg sérstaklega að með þessu frumvarpi er horfið frá þeim ásetningi sem uppi var um að leggja Bjargráðasjóð niður. Það hefði ég talið mikið feigðarflan og óheillaspor. Þess vegna fagna ég því að þetta frumvarp hafi slegið allar slíkar hugmyndir út af borðinu, að minnsta kosti um stundarsakir, svo lengi sem Alþingi tekur ekki einhverja aðra ákvörðun, sem væri þá röng ákvörðun.

En aðalatriðið er að við gerum að lögum frumvarp sem í fyrsta lagi festir í sessi hlutverk Bjargráðasjóðs sem er það að koma til liðs við bændur við sérstakar aðstæður sem gerð er grein fyrir í frumvarpinu. Verið er að skera í burtu hlut sveitarfélagsins og munu ríkið og landbúnaðurinn þá standa að baki sjóðnum. Eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu skipa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Bændasamtökin stjórn sjóðsins, sem er eðlilegt, og hafa þeir með framkvæmd þessara laga að gera.

Ég ítreka að með þessu er verið að reyna að lækka kostnað af hinum miklu hækkunum á áburðarverði. Það er mjög mikilvægt að það sé gert með þeim hætti að niðurgreiðslurnar berist til bændanna sjálfra, þær lendi ekki í höndunum á milliliðunum heldur nýtist bændunum sjálfum til hagsbóta.