136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

greiðslur til líffæragjafa.

259. mál
[22:38]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd, félags- og tryggingamálanefnd, sem fjallaði um það frumvarp sem hér er til umfjöllunar og tók ekki þátt í 1. umr. en ég á hins vegar sæti í heilbrigðisnefnd. Það er eitt atriði sem olli mér ákveðinni undrun, dálítið sérstakt ákvæði sem er 5. gr. Þar segir að félags- og tryggingamálaráðherra ákveði með reglugerð hvaða aðila hann felur framkvæmd laga þessara. Það er dálítið óvenjulegt að ekki er sagt til um hverjir skuli halda utan um þetta verkefni. Það eru í sjálfu sér ekki margir aðilar, kannski um 20 manns á ári. Það hlýtur að hafa verið einhver umræða í nefndinni um það hver skyldi halda utan um þetta, hvort það sé einhver tiltekin stofnun sem er nú þegar starfandi eða hvort einhver aðili mundi taka þetta að sér, hugsanlega ný stofnun.

Mig langaði líka til að spyrja um atriði í 8. gr. Þar er talað um að sérfræðilæknir sem annast líffæragjöfina gefi vottorð vegna líffæragjafarinnar. Hvað ef þessi tiltekni sérfræðilæknir er erlendur og líffæragjöfin fer fram erlendis? Þetta hlýtur að hafa verið rætt í nefndinni. Það er eins og gert sé ráð fyrir að þessi líffæragjöf fari einungis fram hér á landi.