136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

málefni aldraðra.

412. mál
[16:25]
Horfa

Ásta Möller (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er komið til atkvæðagreiðslu eftir 3. umr. frumvarp til breytinga á lögum um málefni aldraðra hvað varðar gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Það felur í sér u.þ.b. 400 kr. hækkun á nefskatti á árinu 2009 frá fyrra ári og tekur hækkunin mið af verðlagsbreytingum. Þeir sem eru á aldrinum 16–70 ára greiða eftir samþykkt frumvarpsins 7.534 kr. á árinu 2009 til sjóðsins, þó þannig að þeir sem falla undir ákveðna tekjuviðmiðun, sem er rétt undir 100 þús. kr. á mánuði, eru undanþegnir gjaldinu.

Frumvarpið er á forræði hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og kemur á fremur óvenjulegum tíma því venjulega er þetta frumvarp afgreitt í tengslum við afgreiðslu fjárlaga. Áætlaðar tekjur til sjóðsins á árinu 2009 nema um 1.400 millj. kr. og er þeim ráðstafað úr sjóðnum til uppbyggingar vegna þjónustu við aldraða. Jafnvel þó að það sé umdeilt að nota nefskatt í þessum tilgangi og hefur komið til umræðu í hvert sinn sem þetta mál hefur komið inn í þingsali teljum við að þessum peningum sé vel varið til uppbyggingar á þjónustu við aldraða. Ég segi já.