136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[18:25]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Flutningsmenn tillögunnar eru þingmenn úr öllum flokkum sem sýnir í raun samstöðu um málið.

Hér er afar verðugt verkefni til umræðu og það vekur athygli að af sjö flutningsmönnum voru þrír flutningsmanna jafnframt flutningsmenn sambærilegrar tillögu um aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum almennt sem var flutt á 122. löggjafarþingi. Það eru hv. þingmenn Siv Friðleifsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir sem standa að báðum tillögunum. Niðurstaðan af þeirri þingsályktunartillögu og framkvæmd hennar var á þann veg að það vakti eftirtekt og árangur í alþingiskosningunum 1999. Eftir að framkvæmdaáætlun um að auka hlut kvenna í stjórnmálum hafði starfað með eftirminnilegum hætti í aðdraganda alþingiskosninganna 1999 skilaði það 10% fjölgun kvenna á Alþingi frá kosningunum þar á undan eða úr 25,4%, sem var hlutfall kvenna á þingi sem voru kosnar til alþingis 1995, upp í tæplega 35% sem var hlutfall kvenna af öllum þingmönnum sem voru kjörnir á Alþingi 1999.

En það verður að segjast líka eins og er að hlutur kvenna í stjórnmálum hefur þrátt fyrir allt aukist jafnt og þétt bæði í sveitarstjórnum og á Alþingi. Ef við horfum þó ekki sé nema 30 ár aftur í tímann þá voru á árinu 1979 5% þingheims konur en 2006 voru þær komnar upp í tæp 32%. Strax á árinu 1983 var hlutfall kvenna á þingi 15% sem má ekki síst þakka tilkomu Kvennalistans á þeim tíma. Við það urðu ákveðin skil. Þá náðist yfir ákveðinn þröskuld sem vakti aðra stjórnmálaflokka til umhugsunar um hlut kvenna í stjórnmálum.

Það má líka segja að núna á 27 ára tímabili frá 1982 hefur hlutfall kvenna í sveitarstjórnum aukist úr 12,4% í um 36% eða þrefaldast í raun og veru á 24 árum frá 1982 til 2006. En hlutverk þessarar nefndar sem mælt er fyrir í þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er til umræðu er fyrst og fremst að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

Ég sæti í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins. Það hefur tekið saman tölulegar upplýsingar um konur og karla í stjórnmálum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem eru nýlegastar eru konur 18% þingmanna í heiminum. Hæst hlutfall er í Rúanda eða um 50%. Mig minnir að það sé komið rétt yfir 50% núna en var 49% fyrir um það bil ári síðan. Næst kemur Svíþjóð með 47%. En samkvæmt þeim tölum sem ég skoðaði þá, reyndar kannski ekki alveg þeim nýjustu, var Ísland í þrettánda sæti. Rúanda kom á nýju þingi og tók algjörlega tillit til ráðlegginga Alþjóðaþingmannasambandsins varðandi hlutfall kvenna og karla í þingum og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að koma þeim hugmyndum í gegn þannig að helmingur þingheims í því stríðshrjáða landi Rúanda er konur en það voru ekki síst konur sem fóru illa út úr átökum þar.

Hlutfall kvenna á þjóðþingum hefur aukist jafnt og þétt, ekki bara á Íslandi heldur almennt í heiminum. Frá 1995 hefur hlutfallið aukist úr 11% í eins og ég sagði í 18% og mest hefur það aukist í Evrópuríkjunum. Þó er það þannig að í Evrópuríkjunum eru ekki nema 19% þingmanna konur.

Eitt af því sem Alþjóðaþingmannasambandið hefur beitt sér fyrir er að gera könnun á mismunandi stöðu kvenna og karla í stjórnmálum og þá út frá viðhorfum þeirra. Mjög athyglisverð rannsókn var birt á síðasta ári um jafnrétti í stjórnmálum, könnun karla og kvenna í þingum heims. Niðurstaðan sem þar kom fram er að mínu mati einn besti rökstuðningur fyrir því af hverju konur og karlar eigi að vera til jafns kosin í ráðandi stöður í hverju landi fyrir sig.

Það kemur til dæmis í ljós að afar mismunandi þættir letja konur og karla til þátttöku í stjórnmálum. Viðhorf karla og kvenna til stjórnmála eru mjög mismunandi og menn standa frammi fyrir mjög mismunandi aðstæðum. Þannig kemur fram í þessari könnun sem ég vísaði til hér að framan að þegar konur eru spurðar að því hvaða þættir komi í veg fyrir að þær taki þátt í stjórnmálum þá vegur fjölskylduábyrgðin mest af fyrstu fjórum þáttunum sem nefndir eru. Í öðru lagi eru það ríkjandi viðhorf gagnvart hlutverki kvenna í samfélaginu, í þriðja lagi skortur á stuðningi fjölskyldu og í fjórða lagi skortur á sjálfstrausti.

Þegar við skoðum hins vegar þá þætti sem letja karla til þátttöku í stjórnmálum þá líta þeir allt öðruvísi út en hjá konum. Þannig er til dæmis fjölskylduábyrgð, sem er í fyrsta sæti hjá konum, í ellefta sæti hjá körlum og skortur á stuðningi fjölskyldu er í áttunda sæti hjá körlum en í þriðja sæti hjá konum. Því er alveg ljóst að fjölskylduábyrgð og stuðningur fjölskyldu við ákvörðun um þátttöku í stjórnmálum vegur mjög þungt hjá konum en ekki að sama skapi hjá körlum.

Jafnframt má segja að áherslur karla og kvenna í stjórnmálum eru samkvæmt þessari könnun afar mismunandi. Þannig eru í fyrsta sæti hjá körlum utanríkismál sem vega mjög hátt, í öðru lagi efnahags- og viðskiptamál og í þriðja lagi menntun. Hjá konum eru hins vegar utanríkismálin í sjöunda sæti. Í fyrstu sætum hjá konunum eru málefni kvenna, jafnréttismál, félagsleg málefni í þriðja sæti, fjölskyldutengd málefni í fjórða sæti og menntun í fimmta sæti. Af þessu má sjá að viðhorf karla og kvenna til hlutverka sinna í mótun samfélagsins í heiminum eru mjög ólík. Það segir okkur að til þess að við getum skapað réttlátt samfélag og gert öllum sjónarmiðum jafnhátt undir höfði er mikilvægt að bæði karlar og konur komi að þingstörfum og ráðandi störfum í samfélaginu.

Hv. þingmönnum sem hafa talað á undan mér hefur verið tíðrætt um þau prófkjör sem hafa farið fram upp á síðkastið til þess að velja á lista fyrir alþingiskosningar. Ég hjó eftir því meðal annars hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem er flutningsmaður málsins að hún taldi eða dró það sérstaklega fram að konur í Sjálfstæðisflokki hefðu ekkert sérstaklega óskað eftir því að fá að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ég ætla að leiðrétta hv. þingmann af því að þetta eru nú tvö sæti, fyrsta og annað sæti á listum flokksins, til að leiða hvort sitt kjördæmið og það voru fleiri en tvær og fleiri en þrjár konur sem sóttust eftir sætum frá öðru sæti og upp úr. Mismunandi var þó að hverju var stefnt. En það er ekki hægt að segja með réttu að konur hafi ekki sóst eftir að leiða lista í Reykjavík. Það er hreinlega rangt. Ég tek hins vegar fram að gengi kvenna hefði mátt vera betra en raun varð á og þá á ég sérstaklega við í Reykjavík.

Á hinn bóginn hefur oft verið rætt um að prófkjör henti körlum og konum mismunandi vel. Ég hef oft verið mjög hugsi yfir því og tel að prófkjör í mörgum tilfellum séu aðferð sem hentar körlum mun betur en konum til að ná árangri í stjórnmálum, til þess að komast á lista í stjórnmálum. Á hinn bóginn hljótum við að horfa á að það er mjög mismunandi milli kjördæma hver árangur kvenna hefur verið í Sjálfstæðisflokknum. Prófkjör voru nú notuð um allt land til þess að raða á lista og ég verð að segja að í Suðurkjördæmi náðu konur ágætum árangri. Þrjár konur eru í fyrstu fjórum sætum í Suðurkjördæmi. Sama má segja í Suðvesturkjördæmi, sem er hinn frægi kragi. Þar eru þrjár konur í fimm fyrstu sætunum. Í Norðvesturkjördæmi þar sem konur hafa á undanförnum árum átt frekar erfitt uppdráttar í prófkjörum flokksins eru núna tvær konur í fyrstu fjórum sætunum, í þriðja og fjórða sæti sem er mun betri árangur en við höfum séð á undanförnum árum. Ef ég held áfram með stöðu innan Sjálfstæðisflokksins þá vorum við að ljúka landsfundi í gærkvöldi, glæsilegum landsfundi flokksins. Í gær var kosið í miðstjórn flokksins og í sex af þeim ellefu sætum sem voru í boði voru konur kjörnar.

Eitt sem við þurfum að skoða sérstaklega er að svo virðist, og ekki bara hér heldur víða um heim, sem konur komi síðar inn í stjórnmál en karlar. Meðal annars af þeim ástæðum sem ég nefndi hér á undan, fjölskylduástæðum og fjölskylduábyrgð, þá detta konur að mörgu leyti víða út af vinnumarkaði og draga sig í hlé frá vinnumarkaði á barneignaaldri. Þó nú séu aðeins breyttari aðstæður á síðustu árum eftir að ný lög um fæðingarorlof tóku gildi þá verður ekki fram hjá því horft að konur koma að sumu leyti seinna inn í stjórnmálin og það er ákveðið rannsóknarefni hvort líftími þeirra í stjórnmálum sé styttri. Það er eitt af því sem ég hef ekki haft aðstöðu til að skoða sérstaklega. En það tel ég vera sérstakt rannsóknarefni fræðimanna, að velta fyrir sér hvort líftími kvenna sé styttri heldur en karla.

Ég hef tekið saman nokkra punkta um valdastöðu kvenna hjá hinu opinbera. Ég var í þeirri aðstöðu að bera saman stöðu kvenna annars vegar 2008 og hins vegar 2004. Þegar ég var að undirbúa fyrirlestur um þetta efni fyrir nokkrum mánuðum kom mér óvart hvað það hafði verið mikill árangur á þó ekki lengri tíma en fjórum árum á ýmsum sviðum. Þannig var, eins og hefur komið fram hér áður, að sveitarstjórnarmenn eða konur sem sveitarstjórnarmenn voru 36% kjörinna fulltrúa. En það hafði farið úr 31% frá sveitarstjórnarkosningum 2004 og konur sem bæjarstjórar eða sveitarstjórar og oddvitar voru sem sagt 28% af þessum stöðum, höfðu farið upp um 10% frá 2004. Þetta er heimild frá Hagstofu Íslands. Á þessum stutta tíma hafa konur sótt í sig veðrið í ýmsum valdastöðum innan stjórnmálanna. Það hljótum við að meta og það hlýtur að vera okkur hvatning til frekari dáða.

Jafnframt verð ég líka að draga fram að konum meðal ráðuneytisstjóra hefur fjölgað verulega frá árinu 2004. Þær voru 15% árið 2004 en voru orðnar 33% árið 2008 og í nefndum og ráðum hafði þeim fjölgað úr 30% í 36% milli reyndar áranna 2004 og 2007. Það er framför þarna. Samkvæmt Hagstofu Íslands voru konur sem eru sendiherrar 14% í árslok 2007 en höfðu verið 3% árið 2004. Það er langt í land víða en ég segi það aftur að við mjökumst nokkuð áleiðis í þessum efnum.

Innan atvinnulífsins hefur hlutur kvenna verið tiltölulega rýr og það er sérstakt áhyggjuefni, ekki síst kvenna í fyrirtækjum, í rekstri fyrirtækja því það hefur sýnt sig með rannsóknum að þar sem konur eru stjórnendur og þar sem konur eru í stjórnum fyrirtækja þá virðist sem fyrirtækin séu betur rekin og spjara sig betur en ef það eru einkynja stjórnir eða stjórnendur. Bæði innlendar og erlendar rannsóknir benda til þessa þannig að í raun ætti markaðurinn að svara því með því að ráða fleiri konur til stjórnunarstarfa ef það sýnir sig að fyrirtækin skila meiri arði og ná meiri árangri með slíkri samsetningu. Það segir sig sjálft að með aukinni fjölbreytni í aldri, kyni, menntun, bakgrunni hljóta fleiri sjónarmið að koma fram og fyrirtækin hljóta að sama skapi að mæta betur þörfum neytenda, markhópsins.

Eitt mesta áhyggjuefnið í þessum efnum er að konur hafa ekki sama aðgang að fjölmiðlum og karlar. Margítrekaðar rannsóknir bæði hérlendis og erlendis hafa sýnt það. Við horfum náttúrlega sérstaklega á rannsóknir sem hafa verið gerðar hér heima. Þar sýnir sig að konur í umræðuþáttum fjölmiðla fyrir kosningar 2003 voru eingöngu 24% viðmælenda. Konur eins og karlar eru háðar því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og ég tel að það sé nokkuð augljós staðreynd að eftir því sem fólk er meira í fjölmiðlum því meira áberandi er það og því meiri líkur eru á því að fólk þekki það til að kjósa það síðan hvort heldur er í prófkjörum eða kosningum. Þessar tölur, 24% kvenna fyrir kosningarnar 2004, endurspegla kannanir sem voru gerðar áður. Það var gerð stór könnun á konum í fjölmiðlum. Mig minnir að það hafi verið 1998 eða 1999 og það er áhyggjuefni að hlutfallið var nánast hið sama, 24–25%, fjórðungur viðmælenda í umræðuþáttum fjölmiðla eru konur, 75% karlar. Að sama skapi kom það líka fram að karlar eru 70% fréttamanna og konur um 30%. Það er athugunarefni hvort það sé bein fylgni þarna á milli sem ég tel vera. Af einhverjum ástæðum telja fjölmiðlar að karlar séu áhugaverðari kostur í umræðu. Því þurfum við að reyna að breyta.

Ég ætla ekki að hafa þessa umræðu hér lengri. Þessi þingsályktunartillaga er fullrar athygli verð. Ég fagna því að hún er komin á lokastig og verði samþykkt innan nokkurra daga eða innan tíðar. Vonandi tekst okkur að hrinda henni í framkvæmd með þeim hætti að við sjáum sambærilegan árangur varðandi fjölgun kvenna í framboði til sveitarstjórnarkosninga á næsta ári og við sáum árangur af sambærilegu átaki sem gert var fyrir alþingiskosningarnar 1999.

Ég tel að vitundarvakningin sem fór af stað fyrir alþingiskosningarnar 1999 hafi verið afar gagnleg. Hún skilaði, eins og ég segi, mælanlegum árangri. Hún var ekki bara gagnleg fyrir konur sjálfar, hvatning til að hugsa um það sem valkost að bjóða sig fram til ábyrgðarstarfa í stjórnmálum heldur var þetta líka ákveðin vitundarvakning fyrir stjórnmálaflokkana sjálfa sem er mjög mikilvægt. Ég dreg aftur fram að ég tel að fjölmiðlarnir standi núna mjög illa gagnvart þessum þáttum og þurfi verulega að taka sig á meðal annars á þeim mánuði sem fram undan er fram að alþingiskosningum.