136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[20:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að inna hv. þingmann eftir því, af því að ég man ekki betur en að hæstv. heilbrigðisráðherra sem þáverandi þingmaður, Ögmundur Jónasson, hafi barist mikið gegn skattasamkeppni milli landa og hér er einmitt um eina slíka samkeppni að ræða, hvort ekki sé samstaða í þingflokknum eða hvort menn taki bara U-beygjur eins og í mörgu öðru, eins og varðandi Icesave, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn o.s.frv.

Svo langar mig til að spyrja hv. þingmann hvað því viðvíkur — ég er í sjálfu sér ekkert á móti þessu frumvarpi sem slíku og að lokka hingað til landsins starfsemi — að í rauninni erum við að niðurgreiða kostnað fyrir auðhringa, bandarísk stórfyrirtæki sem græða þá bara þeim mun meira með því að spila á það að lönd eru að bjóða þeim í samkeppni sífellt lægri skatta. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort þetta sé eitthvað sem flokkur hennar styður, að styrkja auðhringa en leggja skatta á Íslendinga í staðinn, íslenskt launafólk, eins og lýst hefur verið yfir að eigi að gera.

Svo er það líka spurningin um skattaskjól sem mikið hefur verið talað um að koma í veg fyrir. Er þetta ekki eins konar skattaskjól þegar farið er að endurgreiða 20% af kostnaðinum? Er það ekki bara svipað og sumir hafa verið að gera með heldur dapurri niðurstöðu fyrir íslenskt efnahagslíf?