136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[22:25]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er þetta mál gengið til nefndar og umsagnaraðilar hafa fengið að tjá sig um það. Það má kannski segja að það sé lýsandi fyrir þær umsagnir sem berast að menn telja að það sjái ekki á svörtu. Það sé vont að vera með gjaldeyrishöft en vegna þess að þau leka og skila ekki tilætluðum árangri megi svo sem fallast á það að frumvarpið eins og það liggur fyrir geti að einhverju marki stoppað í götin og hjálpað til við að ná þeim markmiðum sem stefnt var að með lögum nr. 134 frá 2008 og reglum Seðlabankans um skilaskyldu gjaldeyris sem fylgdu í kjölfarið.

Það sem verður hins vegar að segjast í tengslum við þetta mál er að það er auðvitað mjög lýsandi fyrir þá staðreynd að ríkisstjórninni er að mistakast að létta á þrýstingnum sem er á íslensku krónuna. Það er hið raunverulega vandamál sem við erum að fást við. Það var raunveruleg ástæða þess að við komum hér saman 28. nóvember síðastliðinn og settum nefnd lög, eins og sagði í greinargerð með því máli.

Í greinargerð með frumvarpinu sem við ræðum hér segir, með leyfi forseta:

„Talin var hætta á því að aðilar sem áttu verulegar fjárhæðir í krónum, bæði á innlánsreikningum og í verðbréfum, mundu leggja allt kapp á að selja slík bréf og kaupa gjaldeyri til að koma fjármunum sínum úr landi um leið og færi gæfist.“

Þessi ríkisstjórn sem boðaði það þegar hún tók við völdum að hún ætlaði að grípa til brýnna efnahagsaðgerða getur ekki gert meira gagn en að létta á þrýstingi á íslensku krónuna. Við söknum þess auðvitað verulega að einhverjar markverðar, trúverðugar aðgerðir komi, að við fáum einhverja von um að í náinni framtíð verði hægt að létta á höftunum og að þeim þrýstingi sem er á íslensku krónuna verði aflétt.

Ýmsar aðferðir til þess hafa verið í umræðunni, til að mynda að setja á fót uppboðsmarkað með íslenskar krónur, en það virðist vera ágreiningur um það við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Stefna ríkisstjórnarinnar í því máli er ekki skýr og ekki liggur fyrir hvort sú leið verði farin áður en gengið verður til kosninga í vor.

Það hefur líka verið rætt að breyta innlánum í langtímaríkisskuldabréf þannig að þessu vandamáli, þessum þrýstingi, yrði fleytt nokkur ár fram í tímann, fimm árum, sjö árum, tíu árum, allt er hægt að ræða. Það liggur ekkert fyrir um hvort ríkisstjórnin er að vinna að einhverri slíkri leið eða hvort slík leið er í sjónmáli.

Það hefur líka verið rætt um, nú síðast í fjölmiðlum í þessari viku, að mögulega væri hægt að semja við einhverja af þessum aðilum um að breyta skuldbindingum sínum eða kröfum á íslenskar krónur hér á Íslandi í langtímaskuldbindingar til nýrra verkefna. Við fáum engar fréttir af því í þinginu að einhver árangur sé að nást í þeim viðræðum. Þannig að með öðrum orðum er ekki nokkurt tilefni til að ætla að þessari ríkisstjórn sé að takast það mikilvæga verkefni að létta þrýstingnum á krónuna, sem er ástæðan fyrir því að við erum með gjaldeyrishöft, sem er ástæðan fyrir því að við þurfum nú að ganga lengra í því verkefni að stoppa í götin.

Hættan er auðvitað sú og augljóst er að aðilar á markaði munu finna leiðir fram hjá þessu máli alveg eins og fundnar voru leiðir til að fara fram hjá reglunum sem Seðlabankinn setti í desember. Hvað ætla menn þá að gera? Fyrst setti Alþingi lög og síðan setti Seðlabankinn reglur á grundvelli þeirra í desember.

En hvað ætla menn að gera ef fundnar verða leiðir fram hjá þessum aðferðum? Þá er hætta á því að við endum hér með gjaldeyriseftirlit. Við förum bara lengra og lengra inn í hafta- og eftirlitsumhverfið sem getur ekki endað í öðru en hreinum hörmungum. Þannig að þetta er auðvitað óhagkvæm leið. Þetta er leið sem við komum á síðasta haust til að bregðast við bráðavanda. Þetta er leið sem við erum örugglega öll hér í salnum sammála um að við viljum hafa til skamms tíma og bara tímabundið. En við ætlumst þá auðvitað til þess af ríkisstjórninni að hún tefli fram einhverjum trúverðugum hugmyndum til að létta þrýstingnum sem er á krónuna og skapar þörf fyrir reglurnar.

Á meðan engar slíkar trúverðugar hugmyndir eru ræddar hér í þinginu þrátt fyrir að kallað sé eftir því eða einhver von gefin um að við getum losað okkur út úr gjaldeyrishöftunum þá þykir okkur í Sjálfstæðisflokknum ekki mikil ástæða til að styðja við þær hugmyndir sem verið er að nota í millitíðinni.

Við munum hins vegar ekki standa í vegi fyrir afgreiðslu þessa máls vegna þeirrar óvenjulegu og erfiðu stöðu sem er uppi og ætlum ekki að valda óróa og ójafnvægi á gjaldeyrismörkuðum á morgun.