136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

opinn fundur í fjárlaganefnd – afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[13:33]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það var hárrétt hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að við áttum mjög góðan fund með fjármálaráðherra, ráðuneytisstjóra og þeim sem höfðu umsjón með fjárlagagerð í fjármálaráðuneytinu, þetta var mjög upplýsandi og góður fundur. Þar var m.a. upplýst að fyrstu tvo mánuði þessa árs væri ríkissjóður að nokkru innan fjárlaga hvað útgjöld varðaði en að tekjur væru nokkru minni en ráð var fyrir gert.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var það upplýst unnið væri eftir þeim samningum sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins gerði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í haust og þeim forsendum sem lagðar voru upp þar. Þar kom líka fram að þær forsendur og þau viðmið sem sett voru í samningum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn stæðu enn og að eftir þeim væri unnið. Fyrir mér er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn engin góðgerðarstofnun en talið var nauðsynlegt í haust að ganga til samninga við hann með þessum hætti.

Varðandi síðan þær upplýsingar sem hv. þingmaður spyr um upplýsti hæstv. fjármálaráðherra um að send hafi verið staðfesting til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, m.a. á þeim viðmiðum sem sett voru, en ákveðin atriði sem lytu einkum að (Forseti hringir.) skuldastöðu ríkisins væru enn óljós. Herra forseti, skuldir ríkisins sem hvíla á þjóðinni frá stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) eru hörmulegar.