136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

verðbætur á lán.

[14:39]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl):

Frú forseti. Ég vek hér máls á því fyrirbæri sem kallast verðbætur á lán eða verðtrygging en ætti í raun og veru að heita peningatrygging. Þetta fyrirkomulag felur það í sér að sá einstaklingur sem tekur lán með verðbótum verður að greiða ofan á lánið fjárhæð sem tengist verðlagsbreytingu í landinu miðað við svokallaða vísitölu neysluverðs. Þetta kerfi var búið til í því skyni að þeir sem tóku lán borguðu verðmæti þess til baka sem og að þeir sem lögðu peninga inn á banka sæju ekki peninga sína brenna upp á báli verðbólgunnar.

Vissulega er þetta eðlileg hugsun. Nú er þjóðin þó búin að hafa reynslu af þessu verðbótakerfi í næstum þrjá áratugi og hefur það a.m.k. tvisvar sinnum leitt til þess að fjöldi fjölskyldna hefur misst húsin sín og jafnvel orðið gjaldþrota eða stefnir nú í gjaldþrot.

Hópur sem varð fyrir barðinu á verðtryggingunni á 9. áratug síðustu aldar var stofnaður og kenndur við aflagðan skemmtistað sem hét Sigtún því að þar kom þetta fólk saman. Baráttumál Sigtúnshópsins náðu ekki fram að ganga, því miður, og núna horfir fjöldi fjölskyldna fram á það að lenda í sömu sporum og margir sem voru í Sigtúnshópnum.

Þessi erfiða staða fjölda fólks er til orðin vegna þess að breytingar og viðmið verðtryggðra lána eru ranglát og gefa í raun og veru ekki rétta mynd af því sem er að gerast. Hvers vegna er þessu ekki breytt? Það fólk sem greiddi mánaðarlega af lánum sínum ákveðna fjárhæð fyrir einu ári og sér nú þessar greiðslur hækka og hækka á meðan tekjur þess standa í stað eða jafnvel lækka til mikilla muna eða þá að það er orðið atvinnulaust spyr spurningarinnar: Hvers vegna eru þessu ekki breytt?

Allt frá því að þetta kerfi var tekið upp hefur það sætt mikilli gagnrýni en valdhafar hafa ekki viljað breyta því, e.t.v. af óttanum við að þurfa sjálfir að glíma við hagstjórnarvandann með aga og festu.

Frú forseti. Áður en fólk tók þessi verðtryggðu húsnæðislán var gert greiðslumat og ef viðkomandi taldist hæfur til lántökunnar var gerð svokölluð greiðsluáætlun þar sem greiða átti tiltekna upphæð hvern mánuð. Lántakandi og banki gengu að samkomulaginu sem tók mið af þessari áætlun. Fjöldi fólks sem keypti sér íbúðarhúsnæði í hófsemd og forsjálni og lagði fram eigið fé ásamt lánsfé til kaupanna sér allt í einu að afborganir af lánum eru nú orðnar miklu hærri en gert var ráð fyrir í samningnum. Í sumum tilvikum er skuldin orðin hærri en veð íbúðarinnar og mánaðargreiðsla orðin miklu hærri en um var samið. Fólk sem lagði sparifé í húsnæði sitt í þessum tilvikum hefur tapað því. Hvað á að gera, bíða og vona eða á það að skila lyklunum og koma sér í burt þar sem annað eins rugl er ekki við lýði?

Frú forseti. Í grein Haralds Líndals Haraldssonar hagfræðings sem birtist í Fréttablaðinu fyrir skömmu kemur fram að skuldir heimilanna í landinu hækkuðu vegna vísitölunnar um 100 milljarða kr. á fjórum síðustu mánuðum síðasta árs. Það gerðist eftir bankahrunið og fullyrða má að enginn tók lán á þessum tíma og einnig að mjög dró úr allri neyslu. Þetta undirstrikar vitleysuna og rangindin sem felast í því hvernig lánin hækka og hækka.

Með vísan til þessa sem ég hef sagt vil ég spyrja: Hafa stjórnvöld rætt um það að koma til móts við þessa skuldara með leiðréttingu? Launþegasamtökin gerðu samning við atvinnurekendur um að fresta umsaminni hækkun launa sem átti að koma í síðasta mánuði. Það var gert þar sem talið var að fyrirtæki gætu ekki tekið á sig fleiri hækkanir.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort honum finnist eðlilegt að hinn almenni launþegi sem hefur tekið á sig launalækkun, samið sig frá umsaminni launahækkun eða jafnvel misst vinnuna eigi að standa skil á sínum lánum með fullum verðbótum sem byggjast á mjög vafasömum forsendum og beinlínis hægt að færa rök fyrir að séu rangar.

Að lokum þakka ég fyrir að hæstv. ráðherra er hér til andsvara og vona að svör verði góð og skýr.