136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

verðbætur á lán.

[14:44]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að ræða við hv. þingmann um þetta mál á almennum nótum, eins og hér er gert, um sjálf grundvallarviðmiðin í þessum efnum. Hv. málshefjandi fór yfir sögu verðtryggingarinnar og hvernig hún kom til sögunnar eftir að umtalsverð verðbólga var tekin að geysa og sparnaður brann upp. Á sama tíma fengu þeir sem fengu lán, eins og það var þá kallað og litið á sem happ eða hnoss, lánin hratt skrifuð niður í verðbólgunni sem óverðtryggð lán á þeim tíma. Verðtrygging var svo tekin upp til að takast á við þetta en festist í sessi. Til urðu aðstæður, m.a. þær sem hv. málshefjandi nefndi þegar misgengishópurinn svonefndi sætti því á ákveðnu árabili, eftir stjórnarskiptin 1983, að vísitölubinding launa var afnumin eða skert mjög verulega en verðtrygging lána hélst að fullu. Þannig varð til hið illræmda misræmi sem margir áttu um sárt að binda út af lengi á eftir.

Ég tel að mikil mistök hafi verið gerð í kjölfar þjóðarsáttarinnar og þess ásetnings sem þá var uppi um að nota tækifærið um leið og verðbólga hefði náðst niður með þeim fórnum sem það kostaði á sínum tíma og hefja afnám verðtryggingar. Yfirlýsingar stóðu til þess en það var síðan ekki gert þrátt fyrir ágætar aðstæður til þess á árunum eftir 1990 sem sköpuðust á grundvelli stöðugleika og lágrar verðbólgu.

Það er rétt að árétta að auðvitað er meginvandinn hér verðbólgan sjálf, þensla sem fer úr böndum. Vísitölutengingin mælir eingöngu það jafnvægisleysi sem þá myndast en hefur hins vegar ýmsar verkanir. Um vísitölumælinguna sjálfa hefur mikið verið rætt og spurning er um þann grunn sem þar er lagður og það hvort utanaðkomandi og óskyldir hlutir eiga að hafa áhrif á hækkun höfuðstóls lána eins og við vitum að gerist. Þó verður líka að hafa í huga að það er ekki hægt að breyta slíkum viðmiðunartölum bara af handahófi eða eftir geðþótta um hvað hentar hverju sinni, samanber t.d. umræðu um það að húsnæðiskostnaður eigi ýmist að vera inni í vísitölunni eða ekki. Þar verður að miða við einhverja stöðuga og sanngjarna mælikvarða.

Mikið hefur verið rætt um skuldavanda heimila og atvinnulífs og verðtryggingin kemur þar að sjálfsögðu inn í, sérstaklega í tilviki heimilanna. Mér finnst þó rétt að minna á að skuldir og skuldavandi heimila og atvinnulífs á Íslandi er ekki nýtilkominn með síðasta verðbólguskoti og hruni bankanna. Þegar á árunum 2004–2006 voru bæði íslensk heimili og íslenskt atvinnulíf þegar orðin þau skuldsettustu meðal allra aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD.

Stjórnvöld hafa gripið til ýmissa ráðstafana að undanförnu sem koma til móts við þennan vanda, svo sem eins og þau greiðslujöfnunar- og greiðsluaðlögunarúrræði sem ýmist hafa þegar verið framkvæmd með lagasetningu á Alþingi eða eru hér til umfjöllunar. Stórhækkun vaxtabóta er viðleitni til að mæta kostnaði fólks vegna hás fjármagnskostnaðar og verðtryggingar lána. Ýmsir vilja ganga lengra og menn tala jafnvel um almenna niðurfærslu höfuðstólsins. Þó er nú á það að benda að verðtrygging getur virkað í báðar áttir eins og við fengum dæmi um um síðustu mánaðamót þegar verðbólga hreinlega hvarf og verðlækkun varð. Þá lækkar líka höfuðstóll verðtryggðra lána og þá viljum við væntanlega að það fái að virka til að taka höfuðstólinn niður. Ef ég man rétt lækkaði höfuðstóll verðtryggðra lána um 14 milljarða kr. miðað við mælinguna milli síðustu mánaða.

Í skilningi núverandi ríkisstjórnar hafa engar framtíðarákvarðanir verið teknar í þessum efnum og verða væntanlega ekki á þessum stutta tíma. Ég hef styrkst í þeirri trú, svo ég fái aðeins að tala fyrir mig persónulega en ekki fyrir hönd stjórnvalda, að við eigum að stefna að því að vinda ofan af verðtryggingunni og nota tækifærið um leið og fullnægjandi stöðugleika til þess hefur verið náð. Það getum við til að mynda gert með því að lengja lágmarkslánstíma þeirra lána sem mega vera verðtryggð, færa hann verulega upp þannig að lán til styttri tíma en kannski 15 ára megi ekki sæta verðtryggingu og að bjóða upp á óverðtryggð lán með nafnvöxtum sem valkost. Verðtrygging gæti eftir sem áður verið til staðar sem valkostur fyrir þá sem frekar vilja taka slík lán og dreifa greiðslubyrðinni yfir langan tíma í gegnum það eins og eðli verðtryggingar er fremur en að taka lán með breytilegum nafnvöxtum eða t.d. erlend lán eins og menn voru komnir út í að gera og er hið mesta böl.

Þetta snýst um þá oftryggingu fjármagnsins sem hér hefur verið þar sem verðtryggð lán með breytilegum vöxtum hafa verið við lýði. Áhættan er öll lántakandans en (Forseti hringir.) lánveitandinn er bæði með belti og axlabönd. Það er fyrirkomulag sem við verðum að hverfa frá og að því marki sem (Forseti hringir.) lán eru verðtryggð yfir höfuð eiga þau að vera á föstum og lágum vöxtum.