136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

verðbætur á lán.

[15:11]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hafa farið hér fram og fyrir þau svör sem ráðherra gaf og lýsi yfir ánægju minni með þau sjónarmið hans og annarra hér í umræðunni að afnema beri verðbótaþáttinn. Ýmislegt athyglisvert kom fram eins og t.d. þegar hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson nefndi hamfaravísitöluna og einnig vil ég benda á tillögur sem Frjálslyndi flokkurinn hefur komið með í sambandi við vöxtinn sem hefur verið á verðtryggingunni.

En staðreyndin er sú, frú forseti, að venjulegt heimili greiðir núna miklu hærri afborganir af lánum en verið hefur. Ég veit t.d. um eitt heimili sem greiðir nú 90 þús. kr. á mánuði í stað 70 þús. kr. fyrir tæpu ári. Til að hægt sé að greiða þennan mikla mun hefðu laun fjölskyldunnar þurft að hækka um 20–30 þús. kr. En það hefur ekki gerst og launin þurfa að hækka meira því náttúrlega eru líka teknir skattar af laununum.

Við verðum að taka á þessum málum með alvöru, taka á þeim þannig að fólk sjái fram úr því að geta greitt lánin og haldið áfram að eiga húsin sín og líka vegna þess að fólk hefur oft litið svo á að það að kaupa sér hús sé í raun og veru ævisparnaðurinn. Þegar fólk kaupir íbúð er það ekki bara að hugsa um að eiga húsnæði heldur hefur húsnæðið líka verið viss sparnaður í huga fólks, eign sem fólk á skuldlaust eftir ævina. En þegar svo er komið að skuldirnar eru orðnar miklu hærri en íbúðarhúsnæðið erum við í mjög slæmum málum.