136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[19:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég má til með að koma í 3. umr. um þetta mál vegna þess að ég hef sætt dálitlu ámæli fyrir að hafa greitt því atkvæði í 2. umr. Vegna þess að þetta brýtur náttúrlega öll prinsipp sem ég hef haft og minn flokkur um að hafa skattstofna breiða og undantekningar fáar. Hins vegar hef ég sagt við fólk að undanfarið hafi menn þurft að brjóta ansi mörg prinsipp, bæði þeir sem trúa á markaðsviðskipti og frjálsa samkeppni og eins hinir sem vilja stuðla að velferðarkerfinu og því að hækka bætur. Ég er ansi hræddur um að báðir aðilar þurfi að sveigja af leið um ansi margt.

Þannig er að ég hef t.d. þurft að standa að því að stofna þrjá ríkisbanka og setja gjaldeyrishöft, sem er með ólíkindum. Ég reyndar sat hjá við síðustu breytingu sem dýpkaði enn frekar þau gjaldeyrishöft sem við stóðum að. Þannig að nú í kjölfar kreppunnar þurfa menn að gera ýmislegt sem ekki þykir gott, en það er náttúrlega vegna þeirra aðstæðna sem við búum við.

Þetta er eitt þeirra mála sem eykur atvinnu og þá grípur maður það fegins hendi þótt það brjóti öll prinsipp. Í fyrsta lagi er þetta mjög sértæk aðgerð, hluti af skattasamkeppni á milli landa, sem sérstaklega þingmenn Vinstri grænna hafa barist mikið gegn og ég nefni þar sérstaklega hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmund Jónasson sem margoft hefur sagt að Ísland eigi ekki að taka þátt í skattasamkeppni. En ég geri ráð fyrir að hann hafi stuðlað að þessu frumvarpi með þeim rökum sem ég gat um að nú bryti nauðsyn lög. Þetta er náttúrlega greinilega skattasamkeppni.

En það sem er verra og ætti kannski sérstaklega að vera verra fyrir þá flokka sem standa að þessari ríkisstjórn, sem eru velferðarflokkar og kannski vinstri sinnaðir, er að þeir sem njóta styrkjanna eru aðallega stórfyrirtæki og auðhringar. Á sama tíma skerða menn velferðarkerfið og leggja eða boða skatta á bæði tekjur og eignir fyrirtækja og einstaklinga. Þannig að á sama tíma og svona frumvarp kemur fram sem greiðir 20% af öllum kostnaði stórfyrirtækja ætla menn að leggja skatta á einstaklinga og fyrirtæki og jafnvel láglaunafólk, þótt menn muni eflaust að reyna að hlífa þeim eins og hægt er í þeim darraðardansi sem fyrir dyrum stendur.

En eins og alltaf þegar menn gera undantekningar lenda menn í vandræðum með aðgreiningu og ég hugsa að sá vandi verði enn meiri. Segjum að ég ætli að gera veruleikaþátt eða fræðsluþátt um þann hluta menningar Íslendinga að hingað komi stórstjörnur frá útlöndum og haldi tónleika, þ.e. ég fel málið undir þeim möttli að þetta eigi að vera heimildarmynd um komu frægs tónlistarmanns. Svo kemur tónlistarmaðurinn til Íslands og ég tek kvikmynd af tónleikunum og þá er allt í einu 20% af öllum kostnaði greiddur af ríkinu og þar á meðal laun listamannsins, þessarar stórstjörnu sem fær nú ekki lítið í laun. Þannig að við erum þá farin að niðurgreiða laun stórstjarna sem eru með ofboðsleg ofurlaun, eins og við köllum. Þá er ríkissjóður farinn að greiða ofurlaun þessara manna hér á landi, þannig að ýmsar skrýtnar hliðar eru á málinu og menn geta falið venjulega rokktónleika í Egilshöll undir möttli kvikmyndagerðar.

Þetta eru aðgreiningarvandamálin. En vandamálin sjálf eru að hér koma væntanlega stórstjörnur til að leika í kvikmyndum sem eru með rosalega há laun og af því að þau laun eru hluti af heildarkostnað yrðu þau væntanlega niðurgreidd af ríkissjóði Íslands. Þannig að þetta er allt saman dálítið skrýtið.

En ég benti líka á það við 1. umr., þótt ég ætli kannski ekki að endurtaka mig, að með nákvæmlega sömu rökum gæti maður nánast tekið hvaða atvinnugrein hingað til landsins, bílaframleiðslu eða bara hvað sem er sem ekki er til í landinu nú þegar og sagt að það auki umfang og atvinnu hér á landi og þar með sé réttlætanlegt að niðurgreiða kostnaðinn.

Ég nefndi líka ál — þó að álfyrirtæki njóti ekki sérstakrar fyrirgreiðslu nema þeirrar að þeim eru tryggðir ákveðnir skattar í 20 ár og ég hugsa að mörg íslensk fyrirtæki mundu nú gjarnan vilja að fá svoleiðis tryggingu — að þá er nákvæmlega sama hugsunin þar á bak við og í þessu frumvarpi. Þannig að ég ætti í rauninni að vera á móti þessu frumvarpi, herra forseti, en er það ekki vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem eru á Íslandi núna og svo vegna þess að þetta frumvarp rennur út í árslok 2011, samkvæmt bráðabirgðaákvæði sem fylgir lögunum.