136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[23:25]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni hversu miklu það skiptir fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi, fyrir auknar gjaldeyristekjur, atvinnusköpun að frumvarp sem þetta sé lagt fram og gata þess greidd á Alþingi. Mig langar í síðari ræðu minni að fara örlítið út í það hversu skammt og stutt er síðan Íslendingar hófu sjálfir kvikmyndaframleiðslu og þess vegna langar mig í þessari stuttu ræðu að drepa rétt aðeins á það efni.

Það eru örfáir áratugir síðan Íslendingar fóru að staðaldri að framleiða kvikmyndir í fullri lengd og auðvitað þurftu menn í því efni að leita til útlanda, sóttu alla sína menntun út fyrir landsteinana og það skipti miklu máli að ná sambandi við erlenda framleiðendur til að létta undir hér heima þegar stóru myndirnar okkar voru gerðar.

Við munum öll hversu stór sú stund var í sögu íslensks kvikmyndaiðnaðar þegar mynd Friðriks Þór Friðrikssonar, Börn náttúrunnar, var tilnefnd til Óskarsverðlauna og við Íslendingar vorum öll stolt þegar við sáum Friðrik Þór á rauða dreglinum í Hollywood og okkur þótti ótrúlegt að á þessum stutta tíma hefði þessum mikla árangri verið náð.

Sú mynd ruddi brautina. Það er alveg ábyggilegt að framlag hans og þeirra manna sem hvað stærstu myndir hafa gert hafa skipt miklu máli í því að kynna Ísland sem stað til að taka kvikmyndir. Um leið og við þökkum fyrir það og fögnum því að þessi ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnir — þetta mál kom fyrst fram árið 1999 í ríkisstjórnarsamstarfi sjálfstæðismanna og framsóknarmanna — það er náttúrlega vegna frumkvæðis og frumkvöðlahugsunarháttar þeirra manna sem lifa í kvikmyndaheiminum að þetta mál er orðið til. Öðruvísi hefði það aldrei orðið til. Þess vegna finnst mér gott og mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á þessu, á samhengi þess að hefja göngu kvikmyndagerðar á Íslandi, samhengi þess að þessir menn kölluðu síðan útlendinga til Íslands, kynntu þá fyrir Íslandi. Við skulum ekki gleyma því að Börn náttúrunnar er líka öðrum þræði mynd af íslenskri náttúru, íslenskum bæjum, meira að segja íslenskum þjóðvegum og stöðum á Íslandi sem Íslendingum þykir ekki endilega þeir mest spennandi en í því undri sem verður til kvikmyndinni kviknar eitthvert annað líf.

Þess vegna held ég að með þessu frumvarpi séum við á margan hátt að færa til Íslands þekkingu utan frá til að hjálpa íslenska kvikmyndaiðnaðinum núna þegar við óttumst það ábyggilega mörg að það þrengist verulega um gerð íslenskra mynda. Við vonum að svo sé ekki en auðvitað erum við hrædd um það, auðvitað vitum við að það er erfiðara að fá peninga núna og við þurfum á öllum okkar peningum að halda. Við þurfum að sækja peninga til útlanda, þar þurfum við að keppa við mörg önnur verkefni. Við erum ekki ein í þessum vandræðum, það kreppir að um allan heim, það kreppir líka að hjá erlendum kvikmyndaleikstjórum sem þurfa að sækja í sama brunn, í sömu sjóði, sama fólkið.

Þetta mál og sú hugsun sem í þessu býr, að leiða saman kvikmyndalistina og atvinnugreinar sem tengjast allri þjónustu hingað til Íslands, eflir gjaldeyristekjur þjóðarinnar, atvinnusköpun o.s.frv.

Við vitum hversu mikil áhrif þetta mun hafa á íslenska ferðaþjónustu, veitingastaði, gististaði. Við Íslendingar höfum áhyggjur af því að það hafi dregist verulega saman á innlendum markaði hvað þetta varðar, jafnvel þótt við áttum okkur á því að við þær þrengingar sem við okkur blasa er Ísland orðið ákjósanlegur ferðamannastaður af því að landið er orðið ódýrara. Þá skapast líka tækifæri til að bjóða þessu fólki, bjóða þeim sem hafa áhuga á að taka myndir í hrjóstrugu landslagi þar sem spennandi hlutir eru að gerast að koma hingað með listgrein sína.

Þess vegna, enn og aftur, held ég að svona mál skipti svo miklu máli þegar til lengri tíma er litið.