136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:12]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að vekja athygli forseta á því að búið er að leggja fyrir hann spurningar um það hvenær eigi að ljúka hér fundum. Á það hefur verið bent að þingmenn hafa fjölskylduskyldum að gegna og þurfa að fara heim og sinna börnum sínum. Þó svo að ég sjálf sé ekki í þeirri stöðu held ég að það sé sjálfsögð kurteisi hjá forseta að svara fjölskyldufólkinu hér einhverju um það hvenær hv. þingmenn megi búast við því að komast heim til barna sinna.

Í öðru lagi hefur verið bent á það að á morgun er opinn fundur viðskiptanefndar þar sem er gert ráð fyrir efnismiklum umræðum sem þingmenn þurfa að undirbúa sig undir auk þess sem (Forseti hringir.) fleiri nefndarfundir eru á dagskrá morgundagsins (Forseti hringir.) þannig að mjög vel væri við hæfi að forseti (Forseti hringir.) svaraði þessum spurningum.