136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:36]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar ef ég hef móðgað hv. þingmann með því að telja hann til þingflokks sjálfstæðismanna með jafnafgerandi hætti og ég gerði. Þetta mál hins vegar, virðulegi forseti, er þess eðlis að ég held að sátt ríki um það hér í þingsölum að við viljum að jafnræði sé í búsetu á Íslandi og þeir sem búa á köldu jaðarsvæðunum og hafa ekki aðgang að hitaveitum geti notið raforku og hita sem þá er rafknúinn eða knúinn með öðrum hætti. Um það, virðulegi forseti, tel ég að ríki sæmileg sátt í þessum sal. Þetta er sú leið sem hefur verið ákveðið að fara, þ.e. að niðurgreiða húshitunarkostnað með þessum hætti og vilji hv. þingmaður breyta því legg ég til að hann leggi hér fram þingmál þess efnis og þá getum við rætt það.

Fram að þessu og héðan í frá lít ég svo á að samstaða sé um þessa leið á meðan annað er ekki (Forseti hringir.) formlega lagt fram.