136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:02]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hef verið hér í tvö ár. Umburðarlyndi mitt er löngu landsþekkt, ég hef aldrei nokkurn tíma gert athugasemdir við dagskrá þingsins og mun ekki gera það heldur að þessu sinni, enda er þetta spurning um huglægt eða hlutlægt mat í þeim efnum.

Nákvæmlega á sama hátt ræddum við hér á mánudaginn. Þá kom hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og óskaði eftir því að hér yrði tekin til umræðu skýrsla Ríkisendurskoðunar. Ég kom í pontu í þeirri umræðu og óskaði eftir því að umrædd skýrsla yrði send fjárlaganefnd. Ég komst síðan að því að hún hafði þegar verið rædd á þinginu og/eða þá að ný skýrsla Ríkisendurskoðunar er ekki komin út þannig að stundum er það þannig — (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … huglægt.)

Ég ætla að biðjast afsökunar á þessu frumhlaupi mínu, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) því að ég stóð í þeirri meiningu að skýrslan ætti að vera hér til umræðu (Forseti hringir.) en ítreka að við vorum búin að ræða hana og/eða þá að hin nýja skýrsla er ekki komin út.