136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:56]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Okkur hefur orðið tíðrætt um að það þurfi að standa vörð um hagsmuni heimila og fyrirtækja og fólksins í landinu. Vissulega er það mikið forgangsmál, en það sem snýr að lýðræðislegri breytingu og aðkomu almennings að stjórnsýslu og völdum í þjóðfélaginu er ekki minna eða léttara á vogarskálunum. Við leggjum það að jöfnu og ég held að þetta mál hafi mikla þýðingu, að fólk fái það á tilfinninguna og sjái fram á að Alþingi bregst við og réttir út sáttarhönd til fólksins í landinu um að það geti komið að og fengið að ræða um völdin, um sérhagsmunina, um stöðu sína þannig að Alþingi sitji ekki eitt að því að mega taka ákvörðun um það hvort einhverjum þóknast að breyta stjórnarskránni. Þetta er bara svar við kalli tímans. (BÁ: En verða menn þá ekki að vanda sig?)