136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Miðað við ræðuhöld hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur virðist ekki veita af að við sjálfstæðismenn gerum aðeins skýrari grein fyrir málflutningi okkar hér því það virðist alveg hafa farið fram hjá henni að kjarninn í málflutningi okkar frá upphafi hefur verið sá að sú aðferð sem lagt er upp með í sambandi við þessar stjórnarskrárbreytingar sé ótæk. Þetta er skólabókardæmi um hvernig á ekki að standa að stjórnarskrárbreytingum. Það á ekki að gera stjórnarskrárbreytingar með þessum hætti. Þetta er ekki einkaskoðun sjálfstæðismanna. Ég hef vísað hér áður í laganefnd Lögmannafélagsins sem segir, með leyfi forseta:

„Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingu er að ræða.“

Í umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ragnhildar Helgadóttur, prófessors í Háskólanum í Reykjavík, og fjölda margra annarra umsagnaraðila koma þessi sjónarmið fram. En (Forseti hringir.) hv. þingmenn meiri hlutans láta (Forseti hringir.) þetta sem vind um eyru þjóta hvað eftir annað.