136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson varði mestum hluta ræðu sinnar í að ræða Sjálfstæðisflokkinn en minna um að ræða efnisatriði frumvarpsins. (Gripið fram í.) Og það er greinilegt að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er líka uppteknari af Sjálfstæðisflokknum en frumvarpinu. Ég skil vel áhuga viðkomandi þingmanna á Sjálfstæðisflokknum en ég velti því hins vegar fyrir mér hvort þessi umræða um Sjálfstæðisflokkinn í tengslum við þetta mál skýri það hvers vegna farið er fram með málið af því offorsi sem raun ber vitni.

Það er auðvitað ljóst og þarf enginn um það að deila að hér er verið að brjóta í blað í sambandi við vinnubrögð við stjórnarskrárbreytingar á Íslandi. Það er enginn vafi um það. Ég spyr hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hvort hann sé sáttur við það að standa að þeirri grundvallarbreytingu á aðferðum við að breyta stjórnarskrá á Íslandi (Forseti hringir.) sem hér er á ferðinni.