136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:46]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér í þessu andsvari að vitna í orð Sigurðar Líndals, sem er mikill lagaspekingur — ég held að við getum verið sammála um það, ég og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Hann segir hér, með leyfi forseta:

„Ef setja á landinu nýja stjórnarskrá tel ég rétt að það sé gert á sérstöku stjórnlagaþingi. Með stjórnarskrá er verið að setja Alþingi reglur, m.a. verið að marka valdsvið þess, og því eðlilegt að Alþingi sjálft eigi þar ekki hlut að.“ (Gripið fram í: Lestu lengra.)

Því hefur verið haldið fram að Alþingi noti ekki sem skyldi heimildir sínar, t.d. til að veita framkvæmdarvaldi aðhald, og að það hafi vaxið þinginu yfir höfuð. (Gripið fram í.) Svarar þetta ekki spurningunni? (Gripið fram í: Lestu allt.) Þetta er tekið úr greinargerð eða umsögnum um frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem Sigurður Líndal (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) sendi sérnefnd um stjórnarskrármál og þetta er …

(Forseti (EMS): Forseti biður þingmenn að gefa ræðumanni hljóð til þess að flytja mál sitt.)

... dagsett 20. mars og hann leggur eindregið til að stjórnlagaþingi verði komið á til þess að hér megi skrifa nýja stjórnarskrá. (Gripið fram í: Það þarf að lesa lengra.)