136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:35]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, það er til háborinnar skammar að flutningsmenn þessa frumvarps skuli ekki vera viðstaddir umræðuna. Það er móðgun og niðurlæging gagnvart þinginu, gagnvart þjóðinni og gagnvart stjórnarskránni að þeir sömu menn og vilja breyta stjórnarskránni skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera við umræðu um sínar eigin tillögur. Það er sagt hér að þeir eigi þess ekki kost. Ég á þess ekki góðan kost að sinna skyldum mínum og trúnaðarstörfum hér í þinginu. Ég ætti núna að vera að sinna fjölskyldu minni og börnum. (Gripið fram í.) En ég er hér og sinni vinnu minni, öfugt við flutningsmenn frumvarpsins.

Sem sáttatilboð vil ég bjóða hæstv. forseta upp á það að málið verði nú tekið af dagskrá og í staðinn verði rædd önnur og brýnni mál sem liggja (Forseti hringir.) fyrir þessum fundi eins og t.d. varðandi (Forseti hringir.) fjárfestingarsamning um álverið í Helguvík. Ég óska eftir svörum við því (Forseti hringir.) hvort hæstv. forseti tekur því góða boði mínu.