136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

áhrif gjaldeyrishafta á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

[13:49]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað ekki af hinu góða að við skyldum þurfa að fara þær leiðir að setja upp gjaldeyrishöft, en það er hins vegar af illri nauðsyn vegna þess hvernig þróunin varð hér á landi. Vissulega hefur Sjálfstæðisflokkurinn stjórnað ferð peningamála í landinu í langan tíma, í forsætisráðuneyti og í fjármálaráðuneyti, það fer ekkert á milli mála, hæstv. forseti.

Hitt er líka rétt sem hér hefur verið bent á í umræðunni að það eru oftast til leiðir til að fara fram hjá lögum og menn finna iðulega leiðir til þess að fara fram hjá þeim höftum sem sett hafa verið á. Það breytir hins vegar ekki þeirri stöðu að við vorum nauðbeygð til að fara þá leið sem farin var í haust og einnig að setja þau lög sem við settum fyrir fáum dögum til þess að reyna að tryggja að gjaldeyrir kæmi inn í landið. Þeir sem standa í útflutningi skiluðu inn gjaldeyri sem við þurfum vissulega mjög á að halda til þess að styrkja íslensku krónuna og ekki veitir af eins og nú hagar til.

Útflytjendur sniðgengu hins vegar þær reglur sem við vorum að reyna að setja, sem stefna að því markmiði að reisa við efnahag þjóðarinnar. Það er auðvitað leitt til þess að vita að við skulum eiga einstaklinga sem vilja fara þá vegferð, það er ekki til fyrirmyndar, hæstv. forseti. Við höfum reyndar átt nóg af slíkum einstaklingum undanfarið í þjóðfélaginu sem hafa spilað á fjármálakerfi landsins og spilað með íslenska þjóð. Þess vegna sitjum við þar sem við erum, því miður.

Við getum hins vegar aukið atvinnu í landinu og aukið útflutning. Við getum líka framleitt meira innan lands, ræktað korn, stundað ylrækt, og sparað gjaldeyri og við eigum auðvitað að fara allar þær leiðir sem geta aukið atvinnu og sparað gjaldeyrinn.