136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:10]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt mergurinn málsins. Það er mjög erfitt að standa að lagasetningu þannig að ekki sé óvissa og það er þess vegna sem við höfum alveg sérstakar reglur um hvernig við breytum stjórnarskránni. Það er þess vegna sem menn vanda sig alveg gríðarlega vel. Það er þess vegna sem menn gefa sér mikinn tíma. Hv. þm. Árni M. Mathiesen lýsti því mjög vel í ræðu sinni hvernig að þessu hefði verið staðið hjá ýmsum öðrum þjóðum, í hvaða vinnu menn leggja. Menn hafa vitnað til dæma frá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum hvernig menn vinna þessa vinnu. Menn hafa líka fyrir sér dæmi um hvernig við sjálf höfum unnið slíka vinnu og reynt að vanda okkur og gera þetta vel.

En núna er ekki hægt að segja það, menn geta ekki horft í augun á þjóðinni og sagt: Við erum að vanda okkur og gera þetta vel. Hér hafa komið fram álit fræðimanna, Eiríks Tómassonar, Davíðs Þórs Björgvinssonar og fleiri sem hafa sent okkur misvísandi skilaboð. Í staðinn fyrir að vinna málið áfram, í staðinn fyrir að halda áfram þessari vinnu og gefa okkur tíma þá er rokið áfram og menn viðurkenna það og segja það alveg blákalt að þeir viti að í þessu sé óvissa.

Enn og aftur kemur maður að þeirri spurningu sem snýr að hv. og ágætum þingmönnum Framsóknarflokksins, þ.e. hvernig standi á því að þeir taka ekki upp þá stefnu að segja einfaldlega: Við erum að berjast fyrir stjórnlagaþingi, það á að endurskoða stjórnarskrána og að sjálfsögðu á endurskoða þessi ákvæði eins og önnur. Hvers vegna í ósköpunum að taka þetta ákvæði út með þessum hætti, hafandi þá óvissu sem bæði ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson erum sammála um að er til staðar, sem fræðimenn benda sérstaklega á? Hvers vegna í ósköpunum skyldu menn ekki fara þá leið og því skyldu framsóknarmenn ekki berjast fyrir því hér á hæl og hnakka að það verði þannig? Ég beini orðum mínum sérstaklega til (Forseti hringir.) þeirra sem hafa talað fyrir stjórnlagaþingi. Hví skyldu menn ekki berjast fyrir því að það taka þá allt, (Forseti hringir.) en vera ekki að fara þá undarlegu leið sem nú virðist eiga að fara?