136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[11:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með það að við skulum ræða hér þá framtíðarsýn sem stjórnmálaflokkarnir hafa gagnvart ríkisrekstrinum og það er ekkert að því að spyrja stjórnvöld spurninga, sérstaklega þegar kemur að þessu mikilvæga máli.

Það sem hefur mikil áhrif á stöðu ríkissjóðs er almenn staða í efnahagslífinu. Þegar við horfum upp á það að 18.000 Íslendingar eru án atvinnu og ríkissjóður er farinn að greiða jafnvel á þriðja milljarð króna mánaðarlega í atvinnuleysisbætur þá er sú tala fljót að vinda upp á sig. Ef við gerum ráð fyrir því að á þessu ári verði 20.000 Íslendingar án atvinnu mun það þýða að Atvinnuleysistryggingasjóður þarf að greiða 25–30 milljarða kr. í atvinnuleysisbætur á meðan sami fjöldi fólks hefði getað greitt sína skatta og skyldur til ríkissjóðs sem nemur allt að 20 milljörðum. Viðsnúningurinn hvað þetta mál snertir er 45–50 milljarðar kr.

Það er því brýnasta verkefni okkar allra að koma hjólum atvinnulífsins af stað að nýju. Tíu fyrirtæki verða gjaldþrota að meðaltali á hverjum einasta degi. 50–100 manns hafa verið að missa vinnuna á undangengnum vikum og mánuðum þannig að staðan er grafalvarleg. Það er í þeim anda sem við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að bregðast þurfi við þessu ástandi vegna þess að þetta hefur gríðarlega mikil áhrif á stöðu ríkissjóðs í dag. Við förum ekki í gegnum þessa kreppu eingöngu með stórfelldum skattahækkunum og gríðarlegum niðurskurði. Það getur leitt til þess að við förum í mjög hraðan „spíral“ í samfélaginu sem getur leitt til þess að algert kerfishrun blasi við.

Við þurfum að stuðla að auknum framkvæmdum í samfélaginu. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að við þurfum að taka til alls staðar. Við þurfum að velta hverri einustu krónu fyrir okkur þegar kemur að rekstri ríkisins sérstaklega á þessum erfiðu tímum, en við megum ekki gleyma okkur í því að skera eingöngu niður og leggja auknar byrðar á heimilin. Við þurfum að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir það, frú forseti, að kerfishrun geti orðið í íslensku samfélagi.

Við framsóknarmenn höfum tekið hvað stærst upp í okkur þegar kemur að umræðu um vanda heimila og fyrirtækja. Við höfum talað fyrir róttækum aðgerðum til þess að fyrirbyggja það að slæm staða ríkissjóðs geti orðið staðreynd og verði staðreynd og verði enn verri verði ekkert er að gert. Þess vegna brýni ég hv. þingmenn, stjórnmálaflokka á þinginu, að fara í þá vegferð með okkur framsóknarmönnum að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða þannig að (Forseti hringir.) við horfum ekki upp á algjört kerfishrun hér á landi. Aðgerða er þörf, frú forseti.