136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:48]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í því frumvarpi sem hér er á dagskrá eru tillögur í fjórum greinum um að staðfesta annars vegar eign þjóðarinnar á náttúruauðlindum og hins vegar að auka aðkomu almennings að ákvarðanatöku varðandi lög og stjórnsýslu. Flóknara er þetta mál ekki.

Öllum er núna ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið og er á móti þessu frumvarpi. Það held ég að hafi komið mjög skýrt fram, hann byrjaði reyndar á því að kalla frumvarpið niðurlægingu og lýðskrum og setti allan þingflokkinn á mælendaskrá. Rökstudd dagskrártillaga liggur fyrir frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins, minni hluta nefndarinnar, um að þessu máli skuli í heild sinni vísað frá.

Ég vil að gefnu tilefni taka fram að ég er búinn að fylgjast vandlega með þessari umræðu, bæði héðan úr sal og í sjónvarpi á skrifstofu minni. Umræðan hefur leitt í ljós að tónninn er að breytast í málflutningi sjálfstæðismanna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur léð máls á 2. gr. og eftir atvikum 3. gr. líka. Síðasti hv. ræðumaður hefur líka opnað á það að menn gætu lagað 1. gr. til þannig að sátt væri um hana. Síðast en ekki síst hafa talsmenn Sjálfstæðisflokksins í gær og fyrradag tekið undir það að hugmyndin um stjórnlagaþing kæmi vel til greina. Þeir gera það að vísu á þeim forsendum að það sé ráðgjafarþing og önnur útfærsla.

Í ljósi þessara upplýsinga og þessarar þróunar hvet ég hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að draga úr málflutningi og ræðuhöldum sínum svo málið komist aftur sem fyrst til nefndarinnar svo hægt sé að láta á það reyna hvort hægt sé að ná þeirri sátt í því máli sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er að kalla eftir. Ég held að það færi vel á því fyrir þingið, fyrir (Forseti hringir.) málið og fyrir þjóðina alla að þessari löngu (Forseti hringir.) umræðu linnti, málið kæmist aftur í nefnd og tekist yrði á (Forseti hringir.) um það og látið á reyna hvort hægt sé að ná niðurstöðu sem allir geta verið sæmilega sáttir við.