136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:15]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Stjórnarskráin er sem kunnugt er æðsta réttarheimild Íslands og yfir önnur lög hafin. Því nýtur hún meiri verndar en almenn lög og erfiðara er að breyta henni en öðrum lögum. Stjórnarskráin þarf að vera stöðug og standast pólitískar sviptingar. Sátt þarf að nást um allar stjórnarskrárbreytingar.

Nú eru til umfjöllunar veigamiklar og umdeildar breytingar á stjórnarskrá Íslands. Um slíkar breytingar þarf að fjalla á faglegan og ítarlegan máta. Fyrir nákvæmlega mánuði síðan, þann 6. mars sl., flutti hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, okkur framsögu um frumvarp það sem við ræðum nú, frumvarpið leit því dagsins ljós fyrir einum mánuði.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að sett verði ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindum, ákvæði um skilyrði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, ákvæði um breytingar á stjórnarskrá, til að auðvelda þær, og ákvæði um stjórnlagaþing. Það má gagnrýna frumvarpið út frá mörgum sjónarhornum, t.d. aðferðafræðilega, pólitískt og málefnalega.

Ef við lítum á aðferðafræðina þá mælti hæstv. forsætisráðherra fyrir frumvarpinu fyrir einum mánuði. Nefndin fékk svo frumvarpið í hendur þann 11. mars. Fyrsti fundur nefndarinnar var þann 13. mars. Umsagnarfrestur til umsagnaraðila var til 20. mars og málið var afgreitt úr nefnd þann 30. mars. Þannig má sjá ef við skoðum aðferðafræðilega nálgun að málið fékk um það bil 17 daga í nefnd og það voru, að mér skilst, 11 fundir. Ég ætla að fjalla aðeins síðar um aðferðafræðilega nálgun og þá skoðun mína að það eigi að nota akademísk vinnubrögð, vísindaleg vinnubrögð, bestu vinnubrögð sem þjóðir heims þekkja í dag þegar svo veigamikil atriði eru rædd sem stjórnarskrárbreytingar eru.

Í öðru lagi er hægt að skoða þetta pólitíska sjónarhorn á málin. Mig langar að vitna í og geri það, með leyfi hæstv. forseta, nefndarálit minni hluta sérnefndar um stjórnarskrármál þar sem aðeins er dreypt á því pólitíska máli. Ég ætla annars ekki að gera það að umfjöllunarefni en mig langar til að bera aðeins niður í upphaf þessa nefndarálits:

„Við meðferð þessa máls hefur verið gengið gegn þeirri venju að undirbúa breytingar á stjórnarskrá á þann veg að leitað sé samstöðu allra flokka. Þá hefur verið haldið þannig á málinu í sérnefnd um stjórnarskrármál að tillögu minni hluta nefndarinnar um leið til sátta í henni hefur verið hafnað. Á síðasta fundi sérnefndarinnar lýsti formaður hennar því einfaldlega yfir að tími sátta væri liðinn. Minni hluti sérnefndarinnar gagnrýnir þessa málsmeðferð harðlega og telur hana eina svo ámælisverða að vísa beri frumvarpinu frá að lokinni 2. umræðu um málið og flytur hér tillögu um það.“

Enn fremur segir:

„Minni hlutinn telur einsýnt að þessa flausturslegu aðferð við afgreiðslu frumvarpsins megi rekja til pólitískra aðstæðna, sem sköpuðust við myndun minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þegar Framsóknarflokkurinn féllst á að verja hana vantrausti gegn því að ákveðið yrði með breytingu á stjórnarskrá að afsala Alþingi stjórnarskrárvaldinu og afhenda það stjórnlagaþingi. Minni hlutinn er eindregið andvígur því að þannig sé vegið að valdi og áhrifum Alþingis.“ — Og það er ég líka.

Einnig má gagnrýna frumvarpið málefnalega og ég ætla að koma að því aðeins síðar.

Aðferðafræðin sem lýðræðisríkin nota almennt við breytingar á stjórnarskrá eru venjulega bundin í stjórnarskrám þeirra. Í stjórnarskrá okkar er það bundið í 79. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.“

Í Bandaríkjunum er því þannig farið að bæði fulltrúadeild Bandaríkjaþings sem og öldungadeild þurfa með tveimur þriðja hluta atkvæða að samþykkja umræddar stjórnarskrárbreytingar en auk þess er kveðið á um að langur tími líði til að tryggja að menn séu almennt sáttir við breytingarnar. Í bandarísku löggjöfinni eru líka flóknari atriði sem ég ætla ekki að fara út í. Ef við skoðum löggjöf í Evrópu er það nokkurn veginn þannig að í eldri lýðræðisríkjum er það tryggt að ekki sé hægt að breyta stjórnarskránni nema eftir umtalsverða vinnu, gagnrýni, upplýsingar og jafnvel kosningar. Því má eiginlega segja að þetta atriði og aðferðafræðin sem tengist því hvernig við stöndum nú að þessu máli, þ.e. ekki við heldur minni hlutinn, þ.e. ríkjandi stjórn, sé ekki í takt við þá lýðræðishefð sem er í Evrópu. Ég á sæti í Evrópuráðsþinginu. Þar eru þrjú meginhugtök til grundvallar öllu starfi, það eru mannréttindi, lýðræði og lögræði, þ.e. „rule of law“.

Þau tvö ár sem ég hef setið í Evrópuráðsþinginu hef ég áttað mig á að það skiptir svo miklu máli hvernig við umgöngumst stjórnarskrána okkar, hvernig við umgöngumst lýðveldið og lýðræðið. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það en mér er til efs að gömul lýðræðisríki — af því að ég vil flokka okkur með þeim, þar sem er sterk lýðræðishefð — standi að stjórnarskrárbreytingum í takt við það sem við erum að upplifa núna. Ég fann þess engin dæmi, ekki nokkur dæmi að lýðveldi sem við viljum bera okkur saman við standi svona að málum.

Mig langar að fjalla örlítið um stjórnarskrána. Sem kunnugt er var stjórnarskráin samþykkt 1944, 17. júní á Þingvöllum. Henni hefur verið breytt sjö sinnum oftast vegna kjördæmaskipunar og einhverjum skilyrðum kosningarréttar. Veigamestu breytingarnar má kannski telja þær sem voru gerðar 1991 og 1995. Frá árinu 1991 starfar Alþingi í einni deild en ekki tveimur og 1995 voru gerðar umfangsmiklar breytingar þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður. Stjórnarskráin hefur sjö kafla. Ég er hér með eintak og það sést að það eru ekki of mörg orð. Þetta eru 18 blaðsíður í litlu broti. Í þessari stjórnarskrá okkar sem ég trúi að öllum þingmönnum sé kær eru sjö kaflar.

Í I. kafla er kveðið á um að Ísland skuli vera lýðveldi og stjórnin þingbundin og það skuli vera þrískipting ríkisvalds.

Í II. kafla er fjallað um forseta Íslands og skyldur hans sem hann í raun og veru lætur ráðherrum eftir að framkvæma þannig að vald forseta færist yfir á ráðherra og þar er fjallað um ráðherraábyrgð.

Í III. kafla er fjallað um kjördæmaskipan, kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis.

Í IV. kaflanum er fjallað um störf Alþingis, um nokkur atriði sem ekki má framkvæma nema með lagasetningu og um réttindi og skyldur þingmanna.

Í V. kafla er fjallað um dómsvaldið.

Í VI. kafla um trúmál á Íslandi.

Í VII. kafla er fjallað um mannréttindamál og um rétt hvers þess sem staddur er í landinu, um tjáningarfrelsi og fleiri atriði.

Þetta er stjórnarskráin sem við þingmenn sórum öll eið að að standa vörð um og ég tel mig í ræðustóli í dag vilja standa vörð og ég er að standa vörð um stjórnarskrána. Henni á ekki að breyta á þann hátt sem hér er verið að reyna að gera.

Ég get sagt það þótt ég teljist engan veginn lögfróð eða lögvitur í þeim skilningi að ég sé fræðilega menntuð á því sviði, að ég er búin að kynna mér þær 27 umsagnir sem bárust nefndinni sem hefur starfað undir forustu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur og þeir aðilar sem gáfu umsagnir, 27 aðilar, eiga það sameiginlegt að þeir telja flestir að ýmsu sé ábótavant, bæði í aðferðafræðinni og framsetningunni. Það er ágreiningur um það hversu brýnt sé í raun að keyra málið í gegn. Einnig má telja það vafasamt að fyrstu þrjár greinarnar í frumvarpinu geti ekki beðið stjórnlagaþings sem ráðgert er í 4. gr.

Í sambandi við þær umsagnir sem bárust nefndinni eru mörg álitamál og mörg túlkunaratriði í þessu frumvarpi samkvæmt þeim. Það má eiginlega flokka neikvæðar umsagnir, þ.e. ábendingar umsagnaraðilanna í þrennt. Flestir komu með þá athugasemd að hér væri of skammur tími, þetta væri flýtimeðferð og það væri ekki unnt að svara og gefa umsögn þannig að það væri hægt að fullvinna hana. Í öðru lagi kom fram skýrt í áliti margra að orðanotkun, hugtakanotkun er oft og tíðum loðin og óljós og það þarf að skilgreina lykilhugtök. Svona óljós og loðin ákvæði eiga ekki heima í stjórnarskrá Íslands.

Í þriðja lagi er um að ræða að stjórnarskrárbreytingarnar eigi að gera í sátt. Þegar ljóst er að a.m.k. 40% þingmanna, og ég leyfi mér að fullyrða að margir þeirra sem eru lagamenntaðir eða lögfræðimenntaðir af þeim þingmönnum sem ekki eru í Sjálfstæðisflokknum hljóta að hafa hnút í maganum núna. Sú vinna sem hér hefur verið unnin getur ekki samrýmst fræðigrein þeirra og það að við skulum ræða þetta frumvarp núna með svo stuttum aðdraganda. Eins og fram kom áðan er einn mánuður síðan hæstv. ráðherra, forsætisráðherra, mælti fyrir frumvarpinu. Við erum samt að ræða frumvarpið í ósátt við yfir 40% þingheims og alveg örugglega hafa margir þeirra, leyfi ég mér að fullyrða, ekki tjáð sig um það vegna þess að hringlandaháttur og ótrúverðugleiki eru hliðarafurð þess að ætla með svo skömmum tíma að keyra eitthvað í gegn. Óvönduð vinnubrögð eru óásættanleg þegar um er að ræða stjórnarskrárbreytingar. Stöðugleiki í stjórnarframkvæmd, ábyrgð, traust, virðing og festa fyrir mannréttindum og eignarrétti og stjórnarskrá skipta sköpum fyrir öll lýðræðissamfélög. Það þarf að skapa nauðsynlegt öryggi og því þarf að vinna heiðarlega, trúverðugt og af festu.

Í frumvarpinu eru einnig tvær meginrökvillur sem eru afskaplega fáránlegar. Sú fyrri er þessi flýtimeðferð málsins og það að lýðræðisumbætur sem slíkar eigi að fara í gegn með ólýðræðislegum vinnubrögðum. Þessu tengt er náttúrlega líka að nú á að breyta þremur ákvæðum í stjórnarskránni en 4. gr. frumvarpsins gerir síðan ráð fyrir að stjórnlagaþing komi strax í kjölfarið og þar með verði mögulega breytingar á þeim ákvæðum sem verið er að ná breytingum í gegn á. Það er einhver rökvilla í því að í 4. gr. þarf að núlla allt út sem áður er sagt, í raun og veru. Það er ósætti annars vegar og svo að þrjú fyrstu ákvæðin um breytingar á stjórnarskránni eru í hróplegu ósamræmi við þetta stjórnlagaþing, svokallað.

Ég gæti vitnað í einstaka umsagnir en mig langar að lesa aðeins úr, með leyfi forseta, umsögn sem barst frá laganefnd Lögmannafélags Íslands. Þar stendur:

„Laganefnd telur ákveðna þversögn felast í því að gera efnisbreytingar á stjórnarskránni og á sama tíma koma á fót stjórnlagaþingi sem á að semja nýja stjórnarskrá. Er vandséð að framangreindar breytingar geti haft það mikið gildi á meðan stjórnlagaþing er að störfum en samkvæmt frumvarpinu á stjórnlagaþing að ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011. Ljóst er að sá tími er í sjálfu sér ekki mjög langur miðað við efni ákvæðanna sem um ræðir.“

Enn fremur kemur fram í bréfi frá laganefnd lögmannafélags Íslands:

„Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem boðaðar eru með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar. Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingu er að ræða. Er það afstaða laganefndar að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir.“

Svo mörg voru þau orð.

Meðan ég er að skoða gögnin mín vil ég líka nefna það að til dæmis Davíð Þór Björgvinsson, sem starfar við mannréttindadómstólinn í Strassborg, gagnrýnir það að hafa ekki þann tíma sem til þarf til þess að ígrunda frumvarpið. Honum er gert að skila þann 20. mars áliti sínu en fær til þess örfáa daga. Það er allt of skammur tími. Hann rekur líka þessa óljósu hugtakanotkun og þann misskilning sem hún getur valdið.

Sigurður Líndal skrifar greinargerð og líkt og Davíð Þór Björgvinsson bendir hann á óljósa merkingu orða og hugtaka. Hann bendir líka á spurningu sem er í raun grundvallarspurning: Hvernig virkar svona stjórnlagaþing annars? Og orðrétt segir Sigurður Líndal:

„Annars get ég ekki dulið þá skoðun mína að ólíklegt sé að þing skipað 41 manni valdi þessu verkefni. Líklegast að þingið þróist yfir í eins konar umræðufund og þrætusamkomu sem sökkvi niður í deilur sem engu skili. Vænlegra væri að fá lítinn hóp valinkunnra manna sem njóta almenns trausts til að setja saman tillögu að stjórnarskrá. Hana mætti bera undir stjórnlagaþing sem hefði skýrt afmarkað hlutverk og að lokum gengi hún til þjóðaratkvæðis.“

Sigurður Líndal lýkur sinni álitsgerð með eftirfarandi setningu:

„Auk reglna verður ávallt að halda í heiðri það sem ef til vill má kalla stjórnfestusiðgæði.“

Ég ætla ekki að lesa upp úr fleiri álitum eða umsögnum heldur árétta það sem kom fram áðan að þeir sem sendu inn umsagnir til nefndarinnar voru ósáttir, kannski ekki upp til hópa en að mestu leyti voru þeir ósáttir, afar ósáttir margir hverjir. Því vekur það furðu að nefndin skuli ekki hafa kosið að fjalla betur efnislega um það sem bent var á, um þau atriði sem betur mættu fara. En mér skilst að nefndin hafi ekki kallað til sín þessa sérfræðinga og það má eiginlega segja að hún hafi hundsað þeirra umsagnir og til hvers að veita Alþingi umsagnir sem eru hundsaðar?

Það er stórhættulegt að samþykkja frumvarpið eins og það er. Það býður upp á vafasaman dans. Fyrst eru það öll óljósu hugtökin í 1. gr. og í fleiri greinum og svo kemur maður að stjórnlagaþinginu og maður veltir fyrir sér hver sé raunveruleg staða stjórnlagaþings gagnvart Alþingi, eða hitt, hver sé raunveruleg staða Alþingis gagnvart stjórnlagaþingi. Það má leika sér með þessar spurningar og spyrja hvað ef. Hvað ef Alþingi ákveður að hætta við stjórnlagaþing á næsta kjörtímabili vegna þess að spádómar Sigurðar Líndals rættust ef til vill? Hvað þá? Og hvað ef stjórnlagaþing ákveður að segja bara upp Alþingi, að slíta Alþingi og hafa eitthvað annað fyrirkomulag? Þetta eru svona öfgar hvað-ef-spurninganna. En það má spyrja: Hvað ef? Og niðurstaða mín er: Ég skil engan veginn stöðu stjórnlagaþingsins eins og hún er hugsuð gagnvart Alþingi, gagnvart framkvæmdarvaldinu, gagnvart dómsvaldinu, gagnvart heildarmyndinni. Ég skil vel að það skuli vera kallað á stjórnlagaþing. Ég er til dæmis fylgjandi því að hér verði ráðgefandi stjórnlagaþing vegna þess að það er bara tímabært að endurskoða stjórnarskrána. Ég er algjörlega sannfærð um það. En þá kemur að akademísku vinnubrögðunum og því hvernig skuli staðið að svona viðamiklum breytingum á stjórnarskránni. Það má velta fyrir sér alls konar aðferðarfræði en akademían og vísindin hafa kennt okkur hvernig beri að haga sér í svona viðamiklum verkefnum. Mér finnst tími til kominn að þingið taki sér til eftirbreytni þá þekkingu sem hefur skapast meðal mannkyns á undanfarinni öld og ekki síður á undanförnum áratugum í vísindaheiminum. Þar er rækilega fjallað um aðferðafræði og þá kemur aftur að þessum aðferðafræðilegu gagnrýnisröddum og fyrir mig er það aðalgagnrýnisröddin.

Ég get ekki og má ekki til þess hugsa að stjórnarskrárbreytingar séu boðaðar með óvönduðum vinnubrögðum. Vinnubrögð í akademískum skilningi sem taka einn mánuð eru eiginlega bara skilgreiningunni samkvæmt óvönduð. Það þýddi lítið að koma og mæta með doktorsritgerð upp á höndina sem ekki er búið að útfæra, gera tillögur um, útlista aðferðafræðina og svo framvegis, heldur bara slengja henni fram. Sá sem les slíka doktorsritgerð sér strax að viðkomandi hefur ekki kynnt sér málið, hefur ekki leitað umsagnar, hefur ekki sett sig inn í heim þeirrar vísindagreinar sem viðkomandi skrifaði í.

Akademísk vinnubrögð kalla á öflun upplýsinga. Þau kalla á tillögu um aðferðafræði og efnistök sem byggja á því sem best þekkist til dæmis í gömlum og rótgrónum lýðræðisríkjum sem þykja standa vel í lýðræðishefðinni. Það var nefnilega ekki fyrr en ég var þátttakandi í Evrópuráðsþinginu að ég áttaði mig á því að við Íslendingar erum ekki komin svo ýkja langt og við verðum að átta okkur á því að við höfum margt að læra og þar getum við örugglega lært af öðrum hvernig beri að standa að stjórnarskrárbreytingum.

Síðan mundi ég í aðferðafræðinni sem þriðja lið velja einstaklinga og undirbúa tillögur að stjórnarskrárbreytingum með þeim einstaklingum, vinna eftir þessari aðferðafræði og gefa til þess að minnsta kosti sex mánuði og helst heilt ár. Þá mundu koma fram fyrstu drög að breytingum á stjórnarskrá, fyrstu drög að frumvarpi sem þó yrði ekki lagt fram heldur fyrstu hugmyndir, eftir eitt ár. Síðan yrði að fá víðtæka umræðu um slík drög.

Í sjöunda lagi yrði að taka inn breytingartillögur sem fást þá væntanlega í slíkri umræðu. Þetta er lýðræðislegt. Umræðan á að vera við almenning í landinu, hún á að vera við virtustu fræðimenn á sviði stjórnarskipunarlaga. Umræðan á að vera við alla þá sem málið er kært og eru viðkomandi málinu. Eftir það er kominn tími til að semja frumvarp sem lagt yrði fyrir á Alþingi. Slíkt frumvarp þyrfti að ræða og kynna og ná sáttum um, já, sáttum. Það er eitt grundvallaratriðið í lýðræðishefðinni, þ.e. að minni hlutinn má ekki sitja undir því að meiri hlutinn kúgi þegar minni hlutinn er 40% þingheims og 60% reyndar tæplega, sumir af fullum huga, aðrir af hálfum huga og örugglega eru enn aðrir sem vita betur heldur en að fara í gegn með mál sem hefur fengið einn mánuð.

Þegar minni hlutinn er kúgaður þá getum við ekki talað um lýðræðisríki, ekki í skilningi Evrópuráðsins, ekki í mínum skilningi eftir að ég hef setið marga þeirra fundi, ekki mínum skilningi eftir að ég skil lýðræðið betur hafandi setið á þessu þingi í tvö ár. Það þarf að vega og meta hvert orð. Hugtakanotkun þarf að vera algjörlega skýr. Það þarf líka að skýra samhengi hugtakanna með skýrum rökum á fræðilegum grunni.

Ég er ekki mótfallin því að stjórnarskránni verði breytt. Ég er algjörlega fullviss um að það þarf að breyta ýmsu sem varðar stjórnarskrána og líka sem varðar íslensk lög og framkvæmd laga. Það þarf að breyta ýmsu hvað varðar störf Alþingis. Það þarf að efla og treysta þingmenn og þingheim þannig að fulltrúar þjóðarinnar fái að sinna sínu hlutverki. Kerfið hér þarf að skoða gagngert. En það er eðlilegt og sjálfsagt og þannig á það að vera í lýðræðisríkjum að það á að endurskoða stjórnarskrána. Það á að endurskoða vinnubrögð og það á að endurskoða verklag.

Lýðræðið þarf að þróast og gott dæmi er breytingin sem varð á stjórnarskránni árið 1995 þegar umfangsmiklar breytingar áttu sér stað þegar mannréttindakaflinn var skrifaður og samþykktur samhljóða og án ágreinings. Við þurfum að efla þingið og við þurfum að endurskoða stjórnarskrána. Við þurfum að efla þingið og síðan fylgja eftir þeim breytingum með heildarendurskoðun á starfsemi löggjafans og framkvæmdarvaldsins. Ég er því ekki á móti breytingum nema síður sé.

Mér finnst sorglegt að nú í dag, 6. apríl 2009, skulum við enn ekki fallast á það að einn mánuður sé of skammur tími til þess að breyta stjórnarskránni. 17 dagar í nefnd eru of skammur tími til að breyta stjórnarskránni. Ég held að við verðum öll að á átta okkur á þessu. Það er ekki vegna þess að einhver vilji vera með útúrsnúning eða málþóf nema síður sé og ég mundi kannski teljast ein af þeim sem væri síst af öllu með málþóf í þessu þingi.

En við verðum að standa vörð um stjórnarskrána. Það er algjörlega óverjandi að samþykkja þetta frumvarp. Ég óska þess innilega að það verði lagt til hliðar, að heiðarleiki og trúverðugleiki verði hafður að leiðarljósi við breytingar á stjórnarskrá og að slíkar breytingar verði bara á næstu árum og virkilega vel unnar, vonandi á næstu tveim, þrem árum.

Virðulegi forseti. Sú ríkisstjórn sem nú starfar hafði einsett sér að leitast við að hafa víðtækt samráð við sveitarfélög, aðila vinnumarkaðarins og almenning í landinu eins og segir í verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þetta er fallegt markmið og ég held að allar ríkisstjórnir eigi að hafa slíkt, að leitast við að hafa víðtækt samráð við sveitarfélög, aðila vinnumarkaðarins og almenning í landinu. Þetta mál er dæmi um hið gagnstæða. Ég ætla líka að nefna annað lítið dæmi sem hefur kannski ekkert með stjórnlagaþing að gera beinlínis. En það vill svo til að sú ákvörðun var kynnt að kjósa til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningum. Þetta var gert án samráðs við sveitarstjórnarmenn víðs vegar um land. Þeir fréttu þetta í gegnum fjölmiðlafólk eins og heyrst hefur.

Ríkisstjórnin þarf að vera trúverðug í þessu. Hún þarf að beita sér fyrir því að ná sáttum. Ég held að það hafi verið vonlaust verkefni að ætla að ná sáttum um stjórnarskrárbreytingar á einum mánuði. Það verk er óhugsandi. Ekki nokkur maður sem ég þekki er svo fróður og svo vel að sér að geta staðið að slíkum breytingum þannig að þær megi verða í sátt. Það kemur því ekkert á óvart að það frumvarp sem við ræðum skuli ekki vera þannig að hægt sé að ná sátt um það.

Ég lýsi mig eindregið á móti frumvarpinu eins og það leggur sig. Ég lýsi mig eindregið fylgjandi stjórnarskrárbreytingum. Ég vil hafa vinnubrögðin öguð, vönduð, akademísk, byggð á fræðilegum aðferðum og vísindalegri aðferðafræði.

Í leiðara Fréttablaðsins frá því á föstudaginn var, þann 3. apríl, skrifar ritstjórinn Þorsteinn Pálsson:

„Sá háttur að umsagnir séu veittar um lagafrumvarp er í þágu fólksins í landinu. Hann er málefnaleg vörn þess gegn ofríki framkvæmdarvaldsins. Hefði ríkisstjórnin hlustað á þær athugasemdir sem Alþingi hafa borist er eins víst að ná hefði mátt sátt um bæði vandaðri og skjótvirkari framgang stjórnarskrárbreytinganna en raun verður á.“

Þeir sem þekkja til og hafa tjáð sig um þetta mál hafa vissulega bent á að þetta er í raun og veru ekki hægt að samþykkja. Því dáist ég að sjálfstæðismönnum í dag. Ég dáist að því að þrátt fyrir það að lýðskrumarar hafi gert úr þessu mál sem beint er gegn Sjálfstæðisflokknum — lýðskrumarar sem segja: Sjálfstæðisflokkurinn er á móti þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfstæðisflokkurinn er á móti stjórnlagaþingi og aðkomu fólksins í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn er á móti hinu og þessu. Ekkert slíkt er til umræðu. Sjálfstæðisflokkurinn er á móti óöguðum og óvönduðum vinnubrögðum. Sjálfstæðisflokkurinn er á móti þeirri kúgun sem nú er verið að beita og Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að standa vörð um stjórnarskrá Íslands.

Ég tilheyri stolt þeim flokki sem er tilbúinn að fara í þær umræður um stjórnarskrána sem verða vonandi til þess að málið falli niður, að málið verði tekið upp að kosningum afstöðnum sem eðlilegt má þykja, að málið fari ekki hér í gegn, svo óreifað og illa ígrundað sem það er, vegna þess að pólitískt var ákveðið að einn flokkurinn fengi þetta, annar flokkurinn hitt, og í hrossakaupum er stjórnlagaþingið, sem framsóknarmenn lögðu svo mikla áherslu á, orðið heilagt og ekki hægt að ræða það neitt. Kannski vegna þess að núverandi ríkisstjórn hefur ekki alveg staðið við það sem Framsóknarflokknum fannst vera lofað heldur farið út í að setja til hliðar áherslumál Framsóknarflokksins. Nú er eitt haldreipi eftir, það er 4. gr. þessa frumvarps um stjórnlagaþingið og það má undir engum kringumstæðum svíkja það.

Það er þess vegna sem við sitjum hér dag eftir dag og ræðum málin frekar en að haga okkur eins og lýðræðisríki ber að haga sér. Mér finnst bragurinn á þessu máli vera af síðustu sort. Mig langar ekki að segja orðið bananalýðveldi en það er einhvern veginn ofarlega í huga mér. Hver fer út í stjórnarskrárbreytingar örfáum dögum, örfáum vikum fyrir kosningar? Hvaða þjóðir gera það í ósátt við 40% þingheims? Ég þekki ekki slík vinnubrögð. Ef ég væri yfirmaður á þessum stað mundi ég nú aldeilis reka fólkið til heimahúsanna og biðja það um að vanda vinnubrögðin og átta sig á því að aðferðafræðin sem á að nota í svona máli er allt annars eðlis en sú aðferðafræði sem notuð er hér.

Ég hlýt að lýsa mig algjörlega andvíga þessu frumvarpi eins og áður sagði og vonast til þess að fólkið í landinu skilji að Sjálfstæðisflokkurinn er að standa vörð um grundvallarlýðræði.

Þegar breytingar koma svona óígrundaðar er hugtakanotkunin óljós. Hvað þýðir það þegar fram í sækir? Hvernig á að dæma í málum? Hvernig á fólk að hegða sér? Hvaða misskilningi veldur svona óljós hugtakanotkun? Ég sagði í upphafi máls míns að ég væri ekki lögfróð í þeim skilningi að ég hefði lært lögfræði. Ég er ekki fræðilega menntuð í lögfræði. En ég ber þó, held ég, eins og flestir Íslendingar skynbragð á það að sumt gerir maður ekki. Þetta er eitt af því sem hvílir illa í iðrum mínum, ég bara geri ekki svona.

Mér finnst sárt að sjá hv. þm. Atla Gíslason, sem ég veit, og hef fundið á eigin skinni, að er þannig maður að hann vill ekkert nema vönduð og öguð vinnubrögð — ég hef séð hann vinna þannig og ég ber mikla virðingu fyrir honum. En ég skil ekki svona vinnubrögð. Hvað er hægt að gera, virðulegi forseti, þegar svona er ástatt? Hvað er hægt að gera annað en að standa hér og mótmæla. Ég veit að ég mæli fyrir munn allra sjálfstæðismanna þegar ég segi: Vér mótmælum allir. Það er einhver lítill maður inni í hv. þm. Atla Gíslasyni sem segir honum að þetta sé ekki skynsamlegt. Þetta er ekki aðferðafræðin sem hann mundi vilja sjá við að breyta stjórnarskrá Íslands.

Ég hlýt að tala fyrir munn fleiri þingmanna. Ég veit ekki með hv. þm. Mörð Árnason. Mér er það alveg hulin ráðgáta hvernig hans aðkoma að málinu er. En ég veit alla vega um Atla Gíslason og ég tel mig vita það um fleiri hv. löglærða þingmenn að þetta getur ekki setið vel í þeim. Búnir að verja miklum tíma í sína fræðigrein, sem námsmenn og seinna praktíserandi lögfræðingar og núna þingmenn. Ég á bágt með að sjá að þessir aðilar skuli standa að því að ætla að breyta stjórnarskrá Íslands með þeim vinnubrögðum sem við verðum nú vitni að.

Ég hvet þessa þingmenn, sem ég veit nú ekki hverjir eru — ég hlýt að tala fyrir munn hv. þm. Atla Gíslasonar að einhverju leyti. Hann ætlar væntanlega að skýra það. En ég vona að þetta mál verði reifað og ígrundað. Aðferðafræðin verði skipulögð og við fáum að njóta þess að sjá nýja stjórnarskrá sem við getum öll verið sátt við og öll stolt af. Ég ætla að spá því að slík stjórnarskrá líti dagsins ljós einhvern tímann á næsta kjörtímabili. Ég læt þar með ræðu minni lokið.