136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:56]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir tók orðið bananalýðveldi upp eftir mér. Ég sagði að ég vildi helst ekki segja það. En hún veit vel sjálf að ég held að breyting á stjórnarskrám sé iðulega framkvæmd með þeim hætti sem við ræðum núna, á mánuði eða jafnvel minna, í trássi við aðra, í slíkum lýðveldum. Ég var að vitna til þess.

Varðandi sérnefndina og heimsókn fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þá upplýsti hv. þingmaður um að fulltrúar frá þeim hefðu komið á fund sérnefndarinnar. Mér var ekki kunnugt um það né hafði ég heyrt það. Mér var hins vegar kunnugt um að sveitarstjórnarmenn hafa mótmælt hástöfum og þar með hef ég bara þær upplýsingar á móti þeim upplýsingum sem hv. þingmaður veitti.