136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:22]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það að í þessari umræðu, í öllum þeim ræðum sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt, hafa komið fram öll þau sjónarmið sem þurfa að koma fram. Ekkert nýtt hefur komið fram hér í dag eða nánast ekki neitt. Komið hefur fram ákveðinn samhljómur varðandi 1., 2. og 3. gr. og ákveðnar hugmyndir hafa verið reifaðar varðandi 4. gr. Afstaða þingmanna Sjálfstæðisflokksins er að vísu misvísandi þar að lútandi. En er nú ekki tóm, herra forseti, til þess að ljúka þessari 2. umr., fara með málið í nefnd, sérnefndina, milli 2. og 3. umr., og ræða þá nýju fleti sem upp eru komnir — þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa það fullkomlega í valdi sínu, miðað við þingstyrk og fjölda, vilji þeir halda áfram að móast og tefja okkur frá mikilvægum málum, sem þeir viðurkenna sjálfir að séu afar mikilvæg og þurfi úrlausn hið fyrsta, því ekki að fara með þetta í tilraun í sérnefndinni og athuga í alvöru hvort við náum sáttum?

Sem (Gripið fram í.) fulltrúi í þessari nefnd segi ég að vilja hafi skort til þess að tala efnislega um frumvarpið. Ég reyndi á þremur eða fjórum fundum að beina spurningum og hugmyndum að meðnefndarmönnum mínum í Sjálfstæðisflokknum og ég fékk andsvör vegna þess að þeir voru gráir fyrir járnum í formsatriðum. Þeir voru ekki til viðræðu fyrr en á síðasta degi þó að þeir hefðu haft tillögur frá laugardegi, ekki til viðræðu um að ræða málið efnislega.

Sem betur fer hefur komið fram, á upphafsdegi umræðunnar, að þetta mál er alls ekki jafnumdeilt og maður hefði haldið, því fer fjarri. Þegar við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vorum í málþófi vorum við svo sannarlega í verulegum ágreiningsmálum um vatnsréttindi, Ríkisútvarp o.fl. Hér er enginn slíkur magnaður ágreiningur (Forseti hringir.) nema um aðferðina við að setja þetta fram, (Gripið fram í.) um formið.