136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

frestun þingfundar á meðan framboðsfundur stendur á Ísafirði.

[21:01]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að það stendur enn þá yfir framboðsfundur í Norðvesturkjördæmi þar sem m.a. hæstv. forseti Alþingis, Guðbjartur Hannesson, er meðal þátttakenda. Þar eru einnig fleiri þingmenn og sennilega eru flestir þingmenn Norðvesturkjördæmis staddir á þeim framboðsfundi. Það er óneitanlega dálítið sérkennilegt að við skulum halda áfram fundi í Alþingi á meðan þessi framboðsfundur stendur yfir og að þingmenn geti ekki tekið þátt í því að heyja kosningabaráttu með eðlilegum hætti.

Ég virti það mjög við forseta að hann skyldi fresta fundinum til kl. 9 en það var auðvitað á þeim forsendum að framboðsfundinum yrði lokið (Forseti hringir.) á þeim tíma, en raunin er önnur, (Forseti hringir.) framboðsfundurinn stendur enn og ég vil þess vegna fara þess á leit við forseta að hann fresti fundinum enn um sinn á meðan framboðsfundurinn stendur yfir.